Ísraelar gerðu umfangsmiklar loftárásir á suðurhluta Líbanons í nótt þar sem skotmörkin voru svæði Hisbollah-samtakanna. Að sögn Ísraelshers skutu herþotur þeirra á yfir 100 eldflaugavörpur, auk þess sem skotið var á vopnageymslur.
Líbanska ríkisfréttastofan sagði Ísraela hafa gert að minnsta kosti 52 árásir á suðurhluta landsins.
Stutt er síðan leiðtogi Hisbollah hét því að grípa til hefndaraðgerða eftir að símboðar sprungu í Líbanon með þeim afleiðingum að 37 fórust og þúsundir særðust. Hisbollah-samtökin, sem njóta stuðnings Írana, kenna Ísraelum um sprengingarnar. Ísraelar hafa enn ekki tjáð sig um þær.
Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah, sagði sprengingarnar vera fjöldamorð og stríðsyfirlýsingu og bætti við að Ísrael muni „hljóta réttmæta refsingu þar sem þeir eiga von á henni og þar sem þeir eiga ekki von á henni“.