Danir hafa samið við Kósóvó að hýsa 300 fanga sem hlotið hafa dóm í Danmörku. Fangarnir sem verða fluttir til Kósóvó verða fangar sem eru með ríkisborgararétt utan aðildarríkja Evrópusambandsins.
Reuters greinir frá.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að henni þætti sjálfsagt að skoða það að semja við önnur ríki um að hýsa fanga með erlendan ríkisborgararétt fyrir Ísland.
Bretar eru að skoða slíkt úrræði með Eistum og þingið í Kósóvó samþykkti samning við Dana um slíkt úrræði í mái.
Ástæðan í tilfelli Dana og Breta er yfirfull fangelsi, en á Íslandi er einnig langur listi fólks sem bíður afplánunar. Í Danmörku eru um 1.000 manns sem bíða afplánunar.
Fangelsisyfirvöld í Kósóvó munu endurbyggja Gjilan-fangelsið sem mun vera með rými fyrir 300 fanga.
Þegar samningurinn var fyrst kynntur árið 2021 vakti það áhyggjur af meðferð fanga í Kósóvó. Danir segja hins vegar að þeir muni fá sömu meðferð og lúta sömu reglum og í dönskum fangelsum.
Áætlað er að Kósóvó muni fá 32 milljarða króna næstu 10 ár, eða um 3,2 milljarða á ári, gegn því að hýsa fangana.
Stjórnvöld í Kósóvó segja að fjármunirnir verði notaðir til að bæta fangelsi í Kósóvó og til að fjárfesta í verkefnum tengdum endurnýjanlegri orku.
„Þetta er nauðsynlegt til að tryggja fleiri dönsk fangelsispláss og hjálpar til við að koma aftur á jafnvægi í fangelsiskerfinu,“ sagði Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra Danmerkur, eftir að kósóvóska þingið samþykkti samninginn.
„Jafnframt sendir þetta útlenskum afbrotamönnum skýr skilaboð um að framtíð þeirra sé ekki í Danmörku og því eigi þeir ekki að afplána hér,“ sagði Peter.
Búist er við því að hægt verði að byrja senda fangana til Kósóvó eftir um það bil tvö ár.
28% þeirra sem afplánuðu dóm á Íslandi árið 2023 voru erlendir ríkisborgarar og hefur sú tala aldrei verið hærri.
„Það hefur ekki komið til sérstakrar skoðunar í dómsmálaráðuneytinu að semja við önnur ríki um að hýsa fanga með erlendan ríkisborgararétt, og engin kostnaðargreining hefur farið fram á slíku úrræði hingað til,“ sagði Guðrún í svari við fyrirspurn mbl.is og hélt áfram:
„Hins vegar finnst mér sjálfsagt að skoða slík úrræði, enda er ljóst að sífellt fleiri lönd eru farin að skoða þennan möguleika, í ljósi aukins þrýstings á fangelsiskerfin um allan heim. Sérstaklega í tilfellum fanga sem komu hingað til lands í þeim eina tilgangi að stunda glæpi og hafa engin önnur tengsl við Ísland.“
Á Íslandi eru á þriðja hundrað manns á boðunarlista til afplánunar fullnustu refsinga.