Svona er staðan 10 dögum frá kappræðum

Tíu dagar eru liðnir frá kappræðum Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda repúblikana, og Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, og hefur Harris bætt við sig eilitlu fylgi í könnunum.

Í nýjasta þætti Spursmála fer blaðamaðurinn Hermann yfir enn eitt banatilræðið við Trump, kannanir í baráttunni um Hvíta húsið sem og kannanir fyrir komandi kosningar í öldungadeildinni.

Sam­kvæmt meðaltali RealClear Politics þá hefur Harris á síðastliðinni viku farið úr því að vera með rúmlega eins prósentustiga forskot á Trump yfir í það að vera með u.þ.b. tveggja prósentustiga forskot.

Hægt að hlusta og horfa á Spurs­mál á Spotify, YouTu­be og öll­um helstu streym­isveit­um.

Harris leiðir nú í Pennsylvaníu

Þá myndi Harris hreppa 276 kjör­menn á sama tíma og Trump myndi fá 262 og áfram allt í járnum.

Helsta breytingin á milli vikna er sú að Harris leiðir í kjörmannakerfinu en Trump leiddi í síðustu viku.

Það má rekja til þess að nú mælist Harris með meira fylgi í Pennsylvaníu, en fyrir viku þá mældist Trump með forskot á Harris í því ríki.

Kamala Harris og Donald Trump tókust á í kappræðum fyrir …
Kamala Harris og Donald Trump tókust á í kappræðum fyrir 10 dögum. AFP
Staðan í kjörmannakerfinu samkvæmt könnunum. Harris leiðir nú naumlega.
Staðan í kjörmannakerfinu samkvæmt könnunum. Harris leiðir nú naumlega. Tölvuteiknuð mynd/RealClear Politics/Hallur Már

Repúblikanar stefna á meirihluta í öldungadeildinni

Þá fór Hermann yfir stöðuna í baráttunni um öldungadeildina. Eins og öldungadeildin er skipuð í dag þá eru demókratar með 51 þingmann á móti 49 þingmönnum repúblikana.

Aftur á móti benda kannanir til þess að repúblikanar muni snúa öldungadeildinni í komandi kosningum.

Af þeim 49 þing­mönn­um sem re­públi­kan­ar eru með á þingi eru aðeins tveir í nokkuð sam­keppn­is­hæf­ri baráttu. Það myndu vera Ted Cruz í Texas-ríki og Rick Scott í Flórída-ríki. Kannanir benda þó til þess að þeir muni vinna.

Staðan í öldungadeildinni samkvæmt könnunum. Repúblikanar munu bæta við sig …
Staðan í öldungadeildinni samkvæmt könnunum. Repúblikanar munu bæta við sig tveimur þingsætum samkvæmt könnunum. Tölvuteiknuð mynd/RealClear Politics/Hallur Már

Herja á Vestur-Virginíu og Montana

Í Vest­ur-Virgínu hafa demó­krat­ar átt einn öld­unga­deild­arþing­mann, Joe Manchin, en hann hef­ur ákveðið að bjóða sig ekki fram aft­ur. Fram­bjóðandi re­públi­kana, Jim Justice, mun sam­kvæmt mæl­ing­um vinna af­ger­andi sig­ur.

Í Montana-ríki á þingmaður demó­krata, Jon Tester, í vök að verj­ast. Hann er með mót­fram­boð frá re­públi­kan­an­um Tim Sheehy sem mæl­ist nú orðið með nokkuð gott for­skot á Tester.

Ef Sheehy vinn­ur eins og kann­an­ir gera ráð fyr­ir þá fá re­públi­kan­ar meiri­hluta, að því gefnu að þeir haldi sæt­un­um sín­um og vinni í Vest­ur-Virg­in­íu líka.

Gætu snúið þingsæti demókrata í Ohio

„En það eru sóknartækifæri fyrir repúblikana til að auka meirihlutann enn frekar,“ segir Hermann og bendir á að það séu fleiri spennandi baráttur í gangi og þá sérstaklega í Ohio-ríki.

Þingmaður demó­krata í Ohio, Sherrod Brown, á í hörku­bar­áttu við fram­bjóðanda re­públi­kana, Bernie Moreno.

Brown mæl­ist með 3,6 pró­sentu­stiga for­skot að svo stöddu en það var meira fyrr í sum­ar. Þá má gera ráð fyr­ir því að Trump sigri forsetakosningarnar í ríkinu nokkuð þægi­lega í og mun það hjálpa Moreno.

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, formaður Miðflokks­ins, var aðalviðmæl­andi í nýj­asta þætti Spurs­mála. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert