Tíu dagar eru liðnir frá kappræðum Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda repúblikana, og Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, og hefur Harris bætt við sig eilitlu fylgi í könnunum.
Í nýjasta þætti Spursmála fer blaðamaðurinn Hermann yfir enn eitt banatilræðið við Trump, kannanir í baráttunni um Hvíta húsið sem og kannanir fyrir komandi kosningar í öldungadeildinni.
Samkvæmt meðaltali RealClear Politics þá hefur Harris á síðastliðinni viku farið úr því að vera með rúmlega eins prósentustiga forskot á Trump yfir í það að vera með u.þ.b. tveggja prósentustiga forskot.
Hægt að hlusta og horfa á Spursmál á Spotify, YouTube og öllum helstu streymisveitum.
Þá myndi Harris hreppa 276 kjörmenn á sama tíma og Trump myndi fá 262 og áfram allt í járnum.
Helsta breytingin á milli vikna er sú að Harris leiðir í kjörmannakerfinu en Trump leiddi í síðustu viku.
Það má rekja til þess að nú mælist Harris með meira fylgi í Pennsylvaníu, en fyrir viku þá mældist Trump með forskot á Harris í því ríki.
Þá fór Hermann yfir stöðuna í baráttunni um öldungadeildina. Eins og öldungadeildin er skipuð í dag þá eru demókratar með 51 þingmann á móti 49 þingmönnum repúblikana.
Aftur á móti benda kannanir til þess að repúblikanar muni snúa öldungadeildinni í komandi kosningum.
Af þeim 49 þingmönnum sem repúblikanar eru með á þingi eru aðeins tveir í nokkuð samkeppnishæfri baráttu. Það myndu vera Ted Cruz í Texas-ríki og Rick Scott í Flórída-ríki. Kannanir benda þó til þess að þeir muni vinna.
Í Vestur-Virgínu hafa demókratar átt einn öldungadeildarþingmann, Joe Manchin, en hann hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram aftur. Frambjóðandi repúblikana, Jim Justice, mun samkvæmt mælingum vinna afgerandi sigur.
Í Montana-ríki á þingmaður demókrata, Jon Tester, í vök að verjast. Hann er með mótframboð frá repúblikananum Tim Sheehy sem mælist nú orðið með nokkuð gott forskot á Tester.
Ef Sheehy vinnur eins og kannanir gera ráð fyrir þá fá repúblikanar meirihluta, að því gefnu að þeir haldi sætunum sínum og vinni í Vestur-Virginíu líka.
„En það eru sóknartækifæri fyrir repúblikana til að auka meirihlutann enn frekar,“ segir Hermann og bendir á að það séu fleiri spennandi baráttur í gangi og þá sérstaklega í Ohio-ríki.
Þingmaður demókrata í Ohio, Sherrod Brown, á í hörkubaráttu við frambjóðanda repúblikana, Bernie Moreno.
Brown mælist með 3,6 prósentustiga forskot að svo stöddu en það var meira fyrr í sumar. Þá má gera ráð fyrir því að Trump sigri forsetakosningarnar í ríkinu nokkuð þægilega í og mun það hjálpa Moreno.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var aðalviðmælandi í nýjasta þætti Spursmála. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.