Þekkt trans kona stungin til bana

Lögreglubíll í Georgíu.
Lögreglubíll í Georgíu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þekkt trans kona frá Georgíu var stungin til bana í íbúð sinni á miðvikudaginn. Að sögn yfirvalda var árásin gerð að yfirlögðu ráði.

Draumaflokkurinn, sem fer með völd í Georgíu, hefur lagt fram frumvarp þar sem fjölskyldugildi eiga að vera höfð í fyrirrúmi. Frumvarpinu hefur verið líkt við rússnesk lög um bann við „samkynhneigðum áróðri“ sem hafa verið gagnrýnd af Evrópusambandinu og mannréttindahópum.

Leikkonan, áhrifavaldurinn og fyrirsætan Kesaria Abramidze var drepin í hnífaárás í gær, degi eftir að frumvarpið fór í gegnum þriðju umferð á þinginu, að sögn innanríkisráðuneytis landsins.

Fyrsta opinbera trans konan

Abramidze, sem var 37 ára, var fyrsta manneskjan í Georgíu sem kom út úr skápnum sem trans kona. Hún var fulltrúi þjóðarinnar í alþjóðlegri fegurðarsamkeppni trans fólks árið 2018 og átti yfir hálfa milljón fylgjenda á Instagram.

Að sögn innanríkisráðuneytisins varð hún fyrir „mörgum stungusárum“. Málið er rannsakað sem sérstaklega grimmilegur hatursglæpur að yfirlögðu ráði.

Einn hefur verið handtekinn og segja georgískir fjölmiðlar að hann hafi verið kærasti Abramidze. Samtök hinsegin fólks í landinu fordæma morðið, sem hefur vakið mikinn óhug í Georgíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert