Þrír létust í loftárásum Ísraela á Beirút

Íbúar virða fyrir sér eyðileggingu í kjölfar árása Ísraelsmanna í …
Íbúar virða fyrir sér eyðileggingu í kjölfar árása Ísraelsmanna í úthverfi Beirút í dag. AFP

Ísraelsher staðfestir því að hann hafi gert loftárásir á ákveðin skotmörk í Beirút, höfuðborg Líbanons. Þetta er viðbragð hersins eftir að liðsmenn Hizbollah skutu yfir 100 flugskeytum á Ísrael.

Heilbrigðisráðuneytið í Líbanon segir að þrír hafi látist í árásunum og 17 hafi særst. Árásin var gerð í úthverfi í suðurhluta borgarinnar, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Í vikunni létust rúmlega 30 eftir að símboðar liðsmanna Hizbollah fóru að springa í Líbanon. Þarlend yfirvöld saka Ísraelsmenn um að bera ábyrgð á árásunum.

Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah, sem nýtur stuðnings Írans, hét hefndum í ræðu sem hann flutti í gær.

Þetta er þriðja loftárás Ísraela á Beirút á þessu ári. Í júlí lést herforingi Hizbollah-samtakanna í árás og í janúar féll einn af leiðtogum Hamas í loftárás Ísraela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka