Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og frambjóðandi repúblikana fyrir forsetakosningarnar í nóvember, brást snarlega við og hafnaði tillögu CNN um kappræður á milli hans og Kamölu Harris, varaforseta og frambjóðanda demókrata, í október.
Fyrr í dag samþykkti Harris boð CNN um kappræður og skoraði á Trump að mæta til leiks.
Steven Cheung, kosningastjóri Trump, var hins vegar fljótur að bregðast við og segir framboðið hafna tillögunni. Vísaði hann til orða Trump á samfélagsmiðlum eftir fyrri kappræðurnar við Harris.
„Það verða engar þriðju kappræður,“ sagði hann þar.
Trump mætti fyrst Joe Biden, sitjandi forseta Bandaríkjanna, í kappræðum í júní. Þær drógu dilk á eftir sér því í framhaldinu steig Biden til hliðar. Harris tók svo við keflinu fyrir hönd demókrata og mætti Trump í kappræðum 10. september.