Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, kom til Bandaríkjanna í dag en tilefni heimsóknarinnar er að kynna áætlun Úkraínumanna um að binda enda á tveggja og hálfs árs stríð Úkraínu og Rússlands.
Selenskí mun kynna tillögu sína, sem hann kallar „siguráætlun“, fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta og forsetaframbjóðendunum Kamölu Harris og Donald Trump.
Rússar og Úkraínumenn hafa hart barist í sumar.
Þá hafa Úkraínumenn síðustu vikur þrýst á Vesturlönd til að leyfa sér að nota langdræg vopn til að skjóta á skotmörk langt inni í landi í Rússlandi, en slík vopn hafa þeir þegar fengið afhent frá bandamönnum sínum.
Hefur slíkur þrýstingur verið án árangurs enn sem komið er. Búist er við því að Selenskí reyni að sannfæra Biden um að skipta um skoðun í þeim efnum.