Emilie O., fyrrverandi eiginkona manns sem er einn af sakborningunum í máli er varðar hópnauðgun, brotnaði niður þegar hún gaf skýrslu fyrir dómi í dag.
Þar sagðist hún hafa lifað í lygi og að hún sjálf hefði mögulega orðið fyrir kynferðisofbeldi.
„Ég veit ekki hvort mér var nauðgað,“ sagði Emilie í dómsal í frönsku borginni Avigion í dag og bætti við: „Það er hræðilegt, ég mun alltaf efast.“
Emilie er fyrrverandi eiginkona Hugues M., sem er einn af tugum manna sem sakaðir eru um að hafa brotið á Gisele Pelicot kynferðislega í yfir áratug.
Fyrrverandi eiginmaður Gisele, Dominique Pelicot, hefur játað að hafa byrlað henni ólyfjan og boðið ókunnugum mönnum að nauðga henni á heimili hjónanna.
Réttarhöld yfir Pelicot og 50 öðrum mönnum sem sakaðir eru um að hafa tekið þátt í ofbeldinu hafa staðið yfir frá byrjun mánaðar.
Emilie sagði í vitnisburði sínum að eiginmaður hennar hefði mögulega byrlað henni ólyfjan og beitt hana kynferðisofbeldi.
„Ég var blekkt og ég lifði í lygi,“ sagði Emilie sem bjó með manninum í fimm ár.
„Ég er enn að endurhugsa allt,“ bætti hún við án þess að líta í átt að manninum.
Þegar Emilie hóf að segja sögu sína fyrir réttinum tók hún að tárast og horfði á Gisele Pelicot sem sýndi henni stuðning og brosti til hennar.
Hún var 33 ára þegar hún kynntist Hugues í gegnum netið en þau hafa bæði mikinn áhuga á mótorhjólum.
Hún lýsti Hugues sem tillitsömum en sagði þó að hann hefði ítrekað haldið fram hjá henni.
„Hann þurfti á adrenalíni að halda sem hann fékk aðeins í gegnum að keyra mótorhjól og stunda kynlíf,“ sagði Emilie.
Hún fór að sjá líf sitt í nýju ljósi árið 2021 þegar hún frétti af kærunum á hendur fyrrverandi maka sínum.
Sama ár hafði hún verið boðuð á fund lögreglu þar sem henni var tilkynnt að Hugues hefði nauðgað konu árið 2019.
„Ég trúði þeim ekki, ég var slegin og spurði hvort ég gæti fengið að sjá myndina og það var þá sem ég áttaði mig á að þetta væri ekki martröð.“
Hugues er sakaður um tilraun til nauðgunar en hann náði ekki að stunda kynmök við Pelicot á meðan hún var meðvitundarlaus.
Eftir að ásökunin kom fram byrjaði Emilie að efast um samband sitt við Hugues en hún óttast að hún hafi mögulega sætt svipaðri meðferð og Pelicot.
Nótt eina árið 2019 vaknaði hún við það að Hugues reyndi að stunda kynmök við hana. Hún tilkynnti atvikið til lögreglu en vegna skorts á sönnunargögnum var málinu vísað frá.
Þá upplifði Emilie reglulega svima á tímabilinu frá september 2019 til mars 2020.
Gisele Pelicot hefur sagt frá því að í mörg ár hafi hún verið með undarlega minnisskerðingu og önnur heilsufarsvandamál en hún hélt á tímabili að hún væri með alzheimers-sjúkdóminn.