Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hyggst rjúfa þögn sína síðan honum var sleppt úr fangelsi í júní. Það mun hann gera með því að ávarpa Evrópuráðið í næstu viku.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá WikiLeaks þar sem segir að Assange muni ferðast frá heimalandinu Ástralíu til Strassborgar og bera þar vitni í máli sínu frammi fyrir þingnefnd sem hefur mál hans til rannsóknar.
Assange, sem er 53 ára, varði mestum hluta af síðustu fjórtán árum annaðhvort í pólitísku skjóli í ekvadorska sendiráðinu í Lundúnum eða í haldi yfirvalda í Belmarsh-fangelsinu.
Þaðan var hann leystur úr haldi í júní, eftir að hafa setið af sér dóm fyrir að hafa birt hundruð þúsunda leyniskjala innan úr bandaríska stjórnkerfinu.
Assange sneri aftur til Ástralíu og hefur til þessa ekki rætt opinberlega um mál sitt eða dvölina í Lundúnum.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata og varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, hefur undanfarna mánuði unnið að skýrslu fyrir Evrópuráðið vegna varðhaldsins á Julian Assange í Bretlandi og kælandi áhrifum þess á tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi á heimsvísu.
Skýrslan verður rædd á Evrópuráðsþinginu í byrjun október, þar sem lagt verður fyrir þingið að það álykti að Assange hafi verið pólitískur fangi.