Biden: Allsherjarstríð er mögulegt

Biden talaði við konurnar í spjallþættinum The View í dag. …
Biden talaði við konurnar í spjallþættinum The View í dag. Þar lýsti hann áhyggjum sínum af ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Á hans vinstri hönd situr þáttarstjórnandinn Joy Behar. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti varar við því að „allsherjarstríð“ gæti brotist út í Mið-Austurlöndum. 

Biden sagði þetta fyrir skömmu í spjallþættinum The View á ABC.

Hann lætur þessi orð falla á sama tíma og ísraelskir hermenn standa í viðbragðstöðu á landamærum Ísraels og Líbanon. Ísra­els­her hefur í dag undirbúið innrás í Líb­anon á jörðu niðri með því að skjóta hundruðum flugskeyta víða um Líbanon.

600 manns látið lífið

„Allsherjarstríð er mögulegt,“ sagði Biden. 

„Það sem ég held líka er að það er enn tækifæri í spilunum á samkomulagi sem gæti breytt svæðinu í grundvallaratriðum,“ bætti hann við og virtist þar viðra hugmyndina um vopnahlé í Líbanon, þar sem 600 manns hafa fallið í árásum Ísraelshers.

„Það er möguleiki – ég vil ekki ýkja hann – það er möguleiki á því, ef við getum náð samkomulagi um vopnahlé í Líbanon, að við getum farið að fást við Vesturbakkann líka,“ sagði forsetinn en fjöldi hefur farist í aðgerðum Ísraelshers á Vesturbakkanum í Palestínu frá því í ágúst. Ísraelar segjast vera að beina spjótum sínum að palestínskum vígamönnum þar. 

Biden nefndi einnig að líka þurfi að fást við Gasa en illa hefur gengið að ná samkomulagi um vopnahlé milli Hamas-hryðjuverkamanna og Ísraelshers.

„En það er mögulegt,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert