Samtökin Hisbollah sögðust í morgun hafa skotið flugskeyti í átt að ísraelsku borginni Tel Aviv. Ísraelsher segir árásina fordæmalausa.
Loftvarnarflautur ómuðu í Tel Aviv eftir að flugskeytinu var skotið á loft, að sögn Ísraelshers, sem bætti því við að hann hefði skotið það niður yfir borginni.
Þetta er í fyrsta sinn sem Hisbollah lýsa yfir ábyrgð á flugskeytaárás síðan samtökin hófu næstum árslanga bardaga sína við Ísrael eftir að samherjar þeirra í Hamas-samtökunum réðust á Ísrael 7. október.
Talsmaður Ísraelshers sagði við AFP að þetta væri einnig „í fyrsta sinn frá upphafi“ sem flugskeyti frá Hisbollah kemst inn á svæði Tel Aviv.
Höfuðstöðvar ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad í útjaðri Tel Aviv voru skotmarkið, að sögn Hisbollah.
„Þessar höfuðstöðvar eru ábyrgar fyrir aftökum leiðtoga og sprengingum á símboðum og þráðlausum tækjum,“ sagði í yfirlýsingu Hisbollah. Áttu samtökin þar við árásir í síðustu viku þar sem margir voru drepnir, þar á meðal háttsettur leiðtogi þeirra.
Einnig sagði í yfirlýsingunni að árásin hefði verið gerð til stuðnings almenningi á Gasasvæðinu og „til varnar Líbanon og fólkinu þar“.
Í suðurhluta Líbanons, þar sem vígi Hisbollah-samtakanna er, héldu herþotur Ísraela áfram í morgun loftárásum sínum á þorp, þriðja daginn í röð. Loftárásir þeirra fyrr í vikunni urðu að minnsta kosti 558 manns að bana.
Þrír voru drepnir í árás Ísraela á þorp norður af Beirút, höfuðborg Líbanons, að sögn heilbrigðisráðuneytis Líbanons.