Frakkland og Bandaríkin lögðu til á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að gert yrði vopnahlé í 21 dag í Líbanon til þess að hefja sáttaviðræður.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti hittust á fundi í dag þar sem þeir ræddu vopnahléstillöguna.
Biden sagði í dag að „allsherjarstríð“ gæti brotist út í Mið-Austurlöndum.
Ísraelsmenn segjast vera opnir fyrir diplómatískri lausn í máli Líbanons en heita því að gera allt sem mögulegt er til þess að brjóta niður Hisbollah-samtökin.
„Við erum þakklát þeim sem leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að stríðið stigmagnist. Við munum nota öll tiltæk ráð, í samræmi við alþjóðalög, til að ná markmiðum okkar,“ sagði Danny Danon, erindreki Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum, við blaðamenn fyrir fundinn.
Í morgun sögðu Hisbollah-samtökin að þau hefðu skotið flugskeyti í átt að ísraelsku borginni Tel Avív. Þetta var í fyrsta sinn sem samtökin lýsa yfir ábyrgð á flugskeytaárás síðan samtökin hófu næstum árslangan bardaga við Ísrael eftir að samherjar þeirra í Hamas-samtökunum réðust á Ísrael 7. október.
Heilbrigðisráðuneytið í Líbanon sagði að 72 hefðu verið drepnir í árásum Ísraelsmanna í dag.
Ísraelsher hefur í dag undirbúið árás sína á Líbanon á jörðu niðri.