Joe Manchin, þingmaður í öldungadeild Bandaríkjaþings frá Vestur-Virginíu, mun ekki lýsa yfir stuðningi við Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, vegna afstöðu hennar til filibuster-reglunnar í öldungadeildinni.
Í öldungadeildinni verða 60% þingmanna að vera samþykkir um að greiða skuli atkvæði um tiltekið frumvarp. Þegar 41% minnihluti þingsins beitir málþófi til að stöðva frumvörp meirihlutans er það kallað filibuster á ensku.
„Þetta er það eina sem fær okkur til þess að ræða og vinna saman. Ef hún afnemur þetta, þá yrði þetta [öldungadeildin] eins og fulltrúadeildin á sterum,“ sagði Manchin í viðtali við CNN.
Wall Street Journal greinir frá.
Um er að ræða reglu sem hefur verið í gildi í marga áratugi í öldungadeildinni en Harris vill að reglan verði afnumin til að koma í gegnum þingið landslögum um aðgengi að fóstureyðingum. Ítrekaði hún þessa afstöðu sína í útvarpsviðtali á dögunum.
Manchin hafði áður gefið til kynna að hann væri tilbúinn að styðja Harris en að hann myndi fylgjast náið með afstöðu hennar til filibuster-reglunnar. Hann sagði þó að nýjustu ummæli hennar þýddu að hann myndi ekki íhuga að styðja hana lengur.
Svokallaður filibuster á ekki við þegar samþykkja þarf dómara eða ráðherra en gildir þó eins og fyrr segir um frumvörp.
Kyrsten Sinema, öldungadeildarþingmaður frá Arizona, gagnrýndi Harris einnig og sagði í færslu á Twitter:
„Til að benda á hið fullkomlega augljósa, að fjarlægja filibuster-regluna til að koma á fót Roe v Wade gerir einnig framtíðarþingi kleift að banna allar fóstureyðingar á landsvísu,“ skrifaði Sinema og bætti við að hugmynd Harris væri hræðileg og skammsýn.
Bæði Manchin og Sinema voru kjörnir á þing sem demókratar en skilgreina sig nú sem óháða, en báðir þingmenn eru nær miðjunni en flestir demókratar á þingi. Báðir þingmenn eru þó hluti af þingflokki demókrata áfram.
Hvorki Manchin né Sinema eru að sækjast eftir endurkjöri í komandi þingkosningum sem fara fram samhliða forsetakosningunum 5. nóvember.
Filibuster-reglan stuðlar að því að flokkarnir vinni saman og kemur í veg fyrir of mikla flokkadrætti, sagði Manchin í viðtalinu.
„Ég held að þetta gæti eyðilagt landið okkar,“ sagði hann um hverjar afleiðingarnar gætu orðið ef reglan yrði afnumin.