Routh ákærður fyrir banatilræði við Trump

Ryan Wesley Routh ætlaði að ráða Trump af dögum er …
Ryan Wesley Routh ætlaði að ráða Trump af dögum er hann spilaði golf. AFP/Lögreglan í Palm Beach

Ryan Wesley Routh hefur verið ákærður fyrir banatilræði við Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana. Verði hann sakfelldur gæti hann verið dæmdur til að verja það sem eftir er af ævi sinni á bak við lás og slá.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að Routh sé ákærður fyrir banatilræði við forsetaframbjóðandann ásamt tveimur öðrum ákæruliðum.

Í síðustu viku var hann einnig ákærður fyrir vopnalagabrot. Málið verður tekið fyrir í Flórída-ríki.

Ætlaði að myrða Trump á meðan hann spilaði golf

Þann 15. sept­em­ber kom Routh sér fyr­ir með hríðskotariff­il í runna á jaðri golf­vall­ar Trumps í West Palm Beach í Flórída, þar sem Trump var að spila golf.

Meðlim­ur í ör­ygg­is­sveit Trumps kom auga á Routh, skaut nokkr­um skot­um í átt að hon­um og Routh flúði vett­vang­inn.

Hann var hand­tek­inn skömmu seinna.

Ryan Wesley Routh flúði vettvang á bíl en var handtekinn …
Ryan Wesley Routh flúði vettvang á bíl en var handtekinn skömmu seinna. AFP/Lögreglan í Martin-sýslu

Þykir leitt að hafa ekki náð að myrða Trump

Roth skrifaði bréf fyr­ir bana­til­ræðið ef hon­um skyldi mistak­ast og í því bréfi kemur fram að honum þyki leitt að hafa ekki tekist ætlunarverkið.

„Ég reyndi mitt besta og gaf allt sem ég átti til að ljúka verk­inu. Það er und­ir ykk­ur komið að ljúka verk­inu og ég mun bjóða $150.000 (20,5 millj­ón­ir króna) til þess ein­stak­lings sem er til­bú­inn að ljúka verk­efn­inu,“ seg­ir í bréf­inu.

Í sum­ar var annað banatilræði við Trump þar sem hann var skot­inn í eyrað í bæn­um Butler í Pennsylvaníu. Árásarmaðurinn í því tilfelli var felldur skömmu eftir að hann hóf skothríðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert