Ryan Wesley Routh hefur verið ákærður fyrir banatilræði við Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana. Verði hann sakfelldur gæti hann verið dæmdur til að verja það sem eftir er af ævi sinni á bak við lás og slá.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að Routh sé ákærður fyrir banatilræði við forsetaframbjóðandann ásamt tveimur öðrum ákæruliðum.
Í síðustu viku var hann einnig ákærður fyrir vopnalagabrot. Málið verður tekið fyrir í Flórída-ríki.
Þann 15. september kom Routh sér fyrir með hríðskotariffil í runna á jaðri golfvallar Trumps í West Palm Beach í Flórída, þar sem Trump var að spila golf.
Meðlimur í öryggissveit Trumps kom auga á Routh, skaut nokkrum skotum í átt að honum og Routh flúði vettvanginn.
Hann var handtekinn skömmu seinna.
Roth skrifaði bréf fyrir banatilræðið ef honum skyldi mistakast og í því bréfi kemur fram að honum þyki leitt að hafa ekki tekist ætlunarverkið.
„Ég reyndi mitt besta og gaf allt sem ég átti til að ljúka verkinu. Það er undir ykkur komið að ljúka verkinu og ég mun bjóða $150.000 (20,5 milljónir króna) til þess einstaklings sem er tilbúinn að ljúka verkefninu,“ segir í bréfinu.
Í sumar var annað banatilræði við Trump þar sem hann var skotinn í eyrað í bænum Butler í Pennsylvaníu. Árásarmaðurinn í því tilfelli var felldur skömmu eftir að hann hóf skothríðina.