Úkraínumenn segjast hafa gögn um að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi í hyggju að láta her sinn ráðast á kjarnorkuver í Úkraínu til að laska orkukerfi Úkraínumanna.
Frá þessu greindi Volodimír Selenskí Úkraínuforseti í ávarpi sínu til Sameinuðu þjóðanna fyrr í dag.
„Nýlega fékk ég enn eina ógnvekjandi skýrslu frá leyniþjónustunni. Nú virðist Pútín ætla að gera árásir á kjarnorkuverin okkar og innviðina, með það að markmiði að aftengja orkuverin frá raforkukerfinu,“ sagði Selenskí á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Á sama tíma í dag sagði varnarmálaráðuneyti Rússlands að þeim hefði tekist að klófesta bæina Gostre og Grigorivka í Dónetsk-héraði í austurhluta Úkraínu.
Vadym Filashkin, héraðsstjóri í Dónetsk, sagði í dag að rússneskir hermenn hefðu reynt að brjótast inn fyrir varnarlínu Úkraínu og inn í Vugledar, gamlan kolanámubæ sem er sunnar í héraðinu. Hann sagði þó úkraínska herinn vera að brjóta aftur á bak sókn rússnesku hermannanna.
„Um 100 manns eru enn í bænum og neita að yfirgefa hann. Það er ómögulegt að koma til skila mannúðaraðstoð því óvinurinn skýtur á alla vegi,“ sagði héraðsstjórinn.