Samskiptaforritið Telegram mun nú deila símanúmerum og IP-tölum notenda sinna með yfirvöldum ef gild rök liggja fyrir því.
Þetta segir Pavel Durov, framkvæmdastjóri samskiptamiðilsins Telegram, aðeins mánuði eftir að hann var handtekinn í Frakklandi og ákærður fyrir að hafa ekki haft nein afskipti af glæpsamlegri notkun á samskiptaforritinu. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Gefin hafði verið út handtökuskipun vegna rannsóknar á meintum brotum Telegram sem fól meðal annars í sér samskipti notenda í tengslum við fíkniefnasmygl, neteinelti, skipulagða glæpastarfsemi og vettvang fyrir umræðu um hryðjuverk.
En nú virðist hann búinn að skipta um skoðun. Þessi nýja stefna er til þess að halda glæpamönnum frá því að misnota appið, að sögn Durovs.
Telegram hefur fram að þessu verið griðastaður margra glæpamanna. Samskiptaforritið er oft notað til fíkniefnasölu, einnig á Íslandi, auk þess sem barnaklámi er oft deilt á miðlinum.
Að sögn Durovs mun Telegram einnig byrja að fjarlægja og fela vafasamt efni.