Gagnrýna kjarnorkuhótarnir Pútíns harðlega

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pútín Rússlandsforseti hótar …
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pútín Rússlandsforseti hótar að beita kjarnorkuvopnum. Samsett mynd/AFP/Colourbox

Evrópusambandið segir að hótanir Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, um að beita kjarnavopnum verði umfangsmiklar loftárásir gerðar á Rússland, séu ósvífnar og ábyrgðarlausar.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pútín hótar að beita sínum kjarnavopnum,“ sagði Peter Stano, talsmaður utanríkismála hjá ESB.

„Við höfnum svona hótunum alfarið,“ bætti hann við.

Rússnesk stjórnvöld greindu frá því í dag að þau hefðu uppfært stefnu í kjarnorkumálum landsins sem geri yfirvöldum kleift að beita kjarnorkuvopnum gegn ríkjum sem eiga engin slík vopn. Þetta eigi að vera öðrum vestrænum ríkjum víti til varnaðar.

Pútín Rússlandsforseti tilkynnti fyrirætlanir sínar í gær, þ.e. að útvíkka regluverkið í sambandi við notkun á slíkum vopnum. Þetta þýðir að ef það verði gerð umfangsmikil loftárás á Rússland þá geti Rússar brugðist við með kjarnorkuvopnum.

Sem fyrr segir, þá myndu rússnesk stjórnvöld einnig geta beitt slíkum vopnum gegn ríkjum sem búa ekki yfir kjarnorkuvopnum, þ.e. ef þau njóta stuðnings og verndar ríkja sem eiga slíkan vopnabúnað. Þetta er skýr vísun til Úkraínu og vestrænna stuðningsmanna landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert