Háttsettir ráðherrar andvígir vopnahléi

Ísraelski herinn heldur áfram árásum á Hisbollah-samtökin.
Ísraelski herinn heldur áfram árásum á Hisbollah-samtökin. AFP

Tveir hásettir ráðherrar í samsteypustjórn Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hafna tillögu um vopnahlé í Líbanon og hvetja til áframhaldandi baráttu gegn Hisbollah-samtökunum.

Bandaríkin og Frakkland lögðu til á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær að gert yrði þriggja vikna vopnahlé í Líbanon til þess að hefja sáttaviðræður en Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Emmanuel Macren Frakklandsforseti hittust á fundi í gær þar sem þeir ræddu vopnahléstillöguna.

Tillagan um vopnahlé kom nokkrum klukkustundum eftir að Herzi Halevi, yfirmaður ísraelska hersins, sagði hermönnum sínum að búa sig undir hugsanlega sókn á jörðu niðri gegn Hisbollah.

Bezalel Smotrich, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ísraels, er andvígur tillögunni um vopnahlé og segir að stríð gegn Hisbollah sé eina leiðin.

„Herferðin í norðri ætti að enda með einni niðurstöðu, það er að mylja Hisbollah niður og útrýma getu þeirra til að skaða íbúa norðursins,“ sagði Smotrich á samfélagsmiðlinum X.

Munum halda áfram að berjast gegn Hisbollah

Israel Katz utanríkisráðherra leggst einnig gegn vopnahléi.

Það verður ekkert vopnahlé. Við munum halda áfram að berjast gegn Hisbollah-hryðjuverkasamtökunum af öllum mætti ​​þar til sigur vinnst og örugg heimkoma íbúa til heimila sinna er tryggð,“ segir Katz á samfélagsmiðlinum X og vísar til tugþúsunda sem hafa verið á flótta vegna ástandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert