Veitingastaður við flóttamannabúðir vekur athygli

Giorgia Meloni ávarpar ráðstefnu um tilbúin fíkniefni (e. synthetic drugs) …
Giorgia Meloni ávarpar ráðstefnu um tilbúin fíkniefni (e. synthetic drugs) í New York í fyrradag. Veitingastaður til heiðurs henni hefur opnað í Albaníu. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Óvenjulegur veitingastaður hefur tekið til starfa spölkorn frá nýlega reistum flóttamannabúðum í Albaníu, en sá er tileinkaður ítalska forsætisráðherranum Giorgiu Meloni sem hvatti til þess að ríkissjóður Ítalíu legði fé til uppsetningar búðanna.

Ber staðurinn einfaldlega nafnið Trattoria Meloni og stendur við hlið búðanna í Shengjin, hafnarborg í Norður-Albaníu sem liggur að Adríahafinu, en þaðan reynir fjöldi flóttamanna að komast úr landi og yfir til Ítalíu.

Trattoria Meloni býður upp á fisk- og skelfiskrétti og prýðir fjöldi mynda af ítalska ráðherranum hægrisinnaða veggina.

Mannréttindasamtök gagnrýna

„Þegar matur og list koma saman getur útkoman orðið fögur,“ segir eigandinn, Gjergj Luca, við AFP-fréttastofuna.

Flóttamannabúðirnar eru aðrar tveggja sem hefja munu starfsemi á næstu vikum og hafa heimamenn fagnað þeim þar sem þær muni skapa störf í héraði þar sem örbirgðin þjakar heimamenn.

Mannréttindasamtök hafa þó haft uppi gagnrýnisraddir og benda á að starfræksla búðanna gangi í berhögg við alþjóðalög, Albanía, sem tilheyri ekki Evrópusambandinu, geti ekki boðið hælisleitendum tilhlýðilega vernd.

Luca, sem rekur veitingastaðinn, lætur slíka gagnrýni sem vind um eyru þjóta. Vonast hann til þess að ítalski forsætisráðherrann komi í heimsókn, smakki á réttum hans og njóti listarinnar sem veggina prýða en sami málari, Heliton Haliti, sem þekktur er í albönskum listaheimi, málaði þau öll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka