Bandarískur eftirlaunaþegi ákærður í Moskvu

Maður sem kynnti sig sem Stephen James Hubbard á myndskeiði …
Maður sem kynnti sig sem Stephen James Hubbard á myndskeiði á YouTube var staddur í borginni Izyum í Karkív-héraðinu vorið 2022. Líkast til er hann sá sami og nú sætir ákæru í Moskvu fyrir að hafa starfað með Úkraínumönnum sem málaliði. AFP/Sergey Bobok

Í dag hófust í rússnesku höfuðborginni Moskvu réttarhöld yfir Bandaríkjamanni á áttræðisaldri sem sætir ákæru fyrir að hafa starfað sem málaliði í Úkraínu og barist gegn rússneska innrásarliðinu gegn greiðslu.

Það eru rússneskar fréttastofur sem greina frá réttarhöldunum en ákærða gæti beðið allt að fimmtán ára fangelsi í Rússlandi verði hann sekur fundinn.

Fréttastofan RIA Novosti nafngreinir manninn sem Stephen Hubbard frá Big Rapids í Michigan en gerir þann fyrirvara að hann hafi notað ýmsar útgáfur af nafninu á samfélagsmiðlum.

Fluttist til Úkraínu 2014

„Okkur er kunnugt um frásagnir af handtöku bandarísks ríkisborgara. Vegna persónuverndarreglna getum við ekki gefið meira upp,“ segir bandaríska sendiráðið í Moskvu í yfirlýsingu.

Hubbard er eftirlaunaþegi sem fluttist til Úkraínu árið 2014, eftir því sem RIA Novosti kemst næst. Ekki er ljóst hvernig hann komst til Moskvu en dómari hefur orðið við þeirri beiðni saksóknara í málinu að úrskurða hann í gæsluvarðhald til 26. mars 2025. Næsta fyrirtaka í málinu verður á fimmtudaginn í næstu viku.

Í myndskeiði á myndskeiðavefnum YouTube, sem þar var birt í maí 2022, má sjá mann sem kynnir sig sem Stephen James Hubbard og kveðst staddur í borginni Izyum í Karkív-héraðinu en Rússar lögðu hluta héraðsins undir sig vorið 2022, skömmu eftir að þeir gerðu innrás í nágrannalandið í febrúar það ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert