Dregið hefur úr fellibylnum Helenu sem náði landi í Flórídaríki í Bandaríkjunum í nótt. Helena er nú skilgreind sem hitabeltisstormur og færist óðum inn í landið yfir Georgíuríki, að því er segir í tilkynningu frá Miðstöð fellibylja.
Áfram er fólk varað við því að stormurinn sé mjög hættulegur en hann hefur skilið eftir sig yfirflædda vegi og þá hefur víða flætt inn í hús. Íbúar eru þá hvattir til að leita skjóls í miklum vindum og rigningum.
„Þetta er mjög hættulegt þar sem þetta getur ógnað lífi og limum fólks,“ segir í nýjustu tilkynningu Miðstöðvar fellibylja. Minnst þrír eru látnir eftir að fellibylurinn gekk á land.
Helena er nú skilgreind í fyrsta flokki á fimm flokka Saffir-Simpson-skalanum með viðvarandi vindhraða upp á 40 metra á sekúndu. Samkvæmt gömlu íslensku vindstigatöflunni sprengir sá vindhraði skalann en 12 vindstig nema um og yfir 32,7 metrum á sekúndu.
Fellibylurinn var skilgreindur í fjórða flokki á Saffir-Simpson-skalanum þegar fellibylurinn náði landi í Flórída í nótt með viðvarandi vindhraða upp á 62 metra á sekúndu.