Kennari smyglaði hassi og símum

Kennari í norsku fangelsi var tekinn með smyglaða farsíma og …
Kennari í norsku fangelsi var tekinn með smyglaða farsíma og hass á leið inn í fangelsið. Myndin er úr íslensku fangelsi og tengist efni fréttarinnar aðeins að því leyti að vera úr fangelsi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kennari í fangelsi í Østfold í Noregi reyndist luma á ýmsu þegar hún var stöðvuð á leið inn í fangelsið á þriðjudaginn og gert að sæta líkamsleit.

Konan, sem kennir föngum sem kosið hafa að sækja sér menntun á meðan þeir gjalda skuld sína við samfélagið, hafði köku í fórum sínum og þegar fangaverðir rýndu bakkelsið í gegnumlýsingartækjum sínum reyndist eitthvað torkennilegt leynast undir fölskum botni í kökuforminu.

Við nánari skoðun reyndust þar tveir símar á ferð en vistmönnum fangelsisins er úthlutað tuttugu mínútum á viku í símatíma og þykir sumum naumt.

Torkennilegir klumpar

Í kjölfar símafundarins ákváðu verðirnir að leita á kennaranum til hins ýtrasta og kom þá fleira í ljós – torkennilegir klumpar reyndust í brjóstahaldara konunnar og buxnastreng og er öll kurl voru komin til grafar reyndist þar nokkuð magn af hassi er ætlunin hafði verið að smygla inn í fangelsið til fíkinna vistmannanna, en rétt eins og á Íslandi neyta norskir fangar allra bragða til að lauma fíkniefnum inn í fangelsin, oftast með ástvinum eða öðrum vinum sem koma að heimsækja þá.

Lögmaður kennarans, Øyvind Bergøy Pedersen, segir norska ríkisútvarpinu NRK að hann kjósi að tjá sig ekki um málið enn sem komið er en skjólstæðingur hans hefur uppfrætt hvort tveggja gæsluvarðhalds- og afplánunarfanga í þessu tiltekna fangelsi sem norskir fjölmiðlar gefa ekki upp hvað heitir. Nokkur fangelsi eru í fylkinu, þeirra stærst fangelsið í Halden sem um leið er eitt stærsta fangelsi Noregs.

Lögregla krafðist í gær fjögurra vikna gæsluvarðhalds yfir konunni við Héraðsdóm Suður-Østfold og varð héraðsdómari við kröfunni.

NRK
Frifagbevegelse
Sarpsborg Arbeiderblad (læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert