Fagnaði 118 ára afmælisdeginum með bleikri köku

Suðurafrísk kona fagnaði 118 ára afmæli sínu á föstudag og er því talin vera ein af elstu núlifandi manneskjum heims. Lítil afmælisveisla var haldin á hjúkrunarheimili konunnar í Touws River, um 180 kílómetrum norðaustur af Höfðaborg. 

Margaret Maritz er fædd 27. september árið 1906 samkvæmt persónuskilríkjum hennar sem blaðamenn fengu að sjá í afmælisveislunni. 

Skilríkin hafa ekki verið staðfest, en ef fæðingardagur Maritz er þessi dagur, þá er hún eldri en hin japanska Tomiko Itooka sem fæddist 23. maí 1908. 

Samkvæmt bandarískri rannsóknarstofnun í öldrunarfræðum er Itooka elsta núlifandi manneskja heims. 

Lítil afmælisveisla var haldin á hjúkrunarheimili Maritz í í Touws …
Lítil afmælisveisla var haldin á hjúkrunarheimili Maritz í í Touws River. AFP/Rodger Bosch

Heiður að eiga móður á þessum aldri

Tvö af 14 börnum Maritz stóðu við hlið hennar er hún blés á kerti afmælisköku sinnar. 

„Við þurfum að vera þakklát,“ sagði Liza Daniels, 67 ára gömul dóttir Maritz.

„Ég veit ekki hvort ég muni ná þessum aldri einn daginn. En fyrir mig er það mjög mikill heiður að eiga móður sem hefur náð þessum aldri.“

Margaret Maritz ásamt dætrum sínum, Gertryda Maritz, sem er 81 …
Margaret Maritz ásamt dætrum sínum, Gertryda Maritz, sem er 81 árs gömul og Liza Daniels, sem er 67 ára. AFP

Samkvæmt Heims­meta­bók Guinn­ess varð elsta manneskja heimsins 122 ára og 164 daga svo staðfest sé. Það var hin franska Jeanne Calment sem lést í ágúst árið 1997. 

Nokkrir hafa sagst vera eldri en Calment en það hafa ekki legið fyrir nægar sannanir til þess að staðfesta aldur þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert