Um það bil 163,6 milljörðum króna hefur verið varið í kosningabaráttu forsetaframbjóðenda vestanhafs það sem af er ári og enn er rúmlega mánuður til kosninga. Í útlögðum kostnaði framboðanna kennir ýmissa grasa.
Dagblaðið Wall Street Journal hefur tekið saman kostnað framboðanna og pólitískra aðgerðanefnda (PAC) þeim tengdum. Er miðað við frá ársbyrjun og út ágúst.
Kostnaður framboðs Kamölu Harris og Joe Bidens er tekinn saman þar sem um „sömu kennitölu“ er að ræða, en hún tók við kosningasjóðum Bidens. Hér eftir verður talað um framboð Harris.
Harris-framboðið hefur hingað til eytt um 104 milljörðum króna, sem er umtalsvert meira en framboð Donalds Trumps hefur eytt. Hjá Trump nemur kostnaður tæplega 60 milljörðum króna.
Kosningateymi Harris og PAC sem styðja hana hafa það sem af er ári safnað 153,8 milljörðum króna.
Á sama tíma hafa Trump og PAC sem styðja hann safnað 101 milljarði króna.
Ekki er tekið með hvað framboðin hafa safnað í þessum mánuði en það eru líklega umtalsverðar fjárhæðir.
Hjá báðum framboðum fara langmestu peningarnir í auglýsingar í sjónvarpi, útvarpi, pósti og samfélagsmiðlum. Harris hefur varið 48,4 milljörðum króna í auglýsingar sem er rúmlega tvöfalt meira en Trump.
Þá hefur Harris varið rúmlega tíu milljörðum króna í launakostnað og ráðgjöf á árinu á sama tíma og Trump hefur varið um 4,9 milljörðum króna í slíkt.
Ýmis önnur útgjöld fara svo í lögfræðikostnað – Trump hefur varið tvöfalt meira í það en Harris – viðburði, kannanir, ferðakostnað og margt annað.
Í YouTube-myndskeiðunum sem fylgja fréttinni má sjá dæmi um tvær nýjar auglýsingar frá framboðunum.
En starfsmenn framboðanna eru greinilega með mismunandi smekk þegar kemur að mat.
Framboð Trumps hefur eytt tíu milljónum króna í skyndibita – þar af rúmlega þremur milljónum í McDonald's – á sama tíma og framboð Harris hefur varið 2,8 milljónum króna í skyndibita.
Aftur á móti hefur framboð Harris varið 28,6 milljónum króna í fínni veitingastaði á meðan framboð Trumps hefur varið um 7,7 milljónum króna í slíkt.
Athygli vekur að framboð Harris varði 5,6 milljónum króna í ísbúðir í ágúst.
Kosningarnar fara fram 5. nóvember og ljóst er að mun meiri fjármunum á eftir að vera varið í baráttuna hjá báðum frambjóðendum.