Kosningarnar í dag gætu reynst sögulegar

Gengið á kjörstað í dag.
Gengið á kjörstað í dag. AFP

Austurríkismenn ganga til þingkosninga í dag og gætu hægri íhaldsmenn náð sögulegum sigri í kosningunum.

Frelsisflokkurinn FPÖ mælist með mest fylgi í skoðanakönnunum eða 27 prósenta fylgi.

Flokkurinn hefur fjórum sinnum setið í ríkisstjórn en aldrei hlotið sigur í kosningum og því gætu kosningarnar verið sögulegar fyrir flokkinn. 

Formaður flokksins, Herbert Kickl, hefur notið mikilla vinsælda upp á síðkastið. Hann talar fyrir hertu eftirliti á landamærum og vill alfarið banna fólki að leita hælis í Austurríki.

Þá hefur hann verið mjög gagnrýninn á samkomutakmarkanir í Covid-faraldrinum og á núverandi ríkisstjórn fyrir efnahagsástandið í landinu. 

Óvíst að FPÖ myndi ríkisstjórn

Ekki er víst að FPÖ nái að mynda ríkisstjórn þrátt fyrir sigur.

Flokkur fólksins, ÖVP, leiðir ríkisstjórnina í dag og mælist með næstmest fylgi í könnunum eða 25%. Sósíaldemókratar mælast með 20% fylgi og frjálslyndi flokkurinn NEOS mælist með 10% fylgi. 

Formaður ÖVP, Karl Nehammer, er sitjandi kanslari Austurríkis. Síðustu daga hefur hann hvatt landsmenn til þess að kjósa stöðugleika í stað óreiðu. Flokkurinn hefur setið óslitið í ríkisstjórn landsins frá árinu 1987. 

6,3 milljónir manns eru á kjörskrá í Austurríki. Kjörstaðir opnuðu flestir klukkan átta í morgun en loka klukkan 17.

Fyrstu útgönguspár verða birtar í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert