Víða um götur Beirút, höfuðborgar Líbanon, mátti finna syrgjendur í gær eftir að fregnir bárust um dauða Sayyed Hassan Nasrallah, leiðtoga hinnar íslömsku skæruliðahreyfingar sjía-múslima Hisbollah.
„Þeir ljúga. Sayyed er heill heilsu,“ sagði ein kona sem AFP–fréttaveitan náði tali af í Beirút.
Konur komu saman, grétu, börðu á brjóst sín og hrópuðu: „Guð er mestur“. Á meðan aðrir söfnuðust saman í litlum hópum og fylgdust með fréttum á farsímum sínum.
„Ég get ekki lýst áfallinu yfir fregnunum... við fórum öll að gráta,“ sagði Maha Karit, sem var ein fárra sem samþykkti að koma fram undir nafni. Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá aðra konu tala um dauða leiðtogans.
„Hann var eins og faðir sem gerði okkur stolt. Það er ekkert ríki í heiminum sem hefur staðið upp gegn Ísrael, aðeins Sayyed Hassan Nasrallah,“ sagði hún.
Karit fordæmdi Vesturlönd og önnur Arabaríki fyrir að berjast ekki fyrir réttindum Palestínumanna.
„Með Sayyed Hassan vorum við þau einu sem bárum málstað Palestínu á herðum okkar.“