77 milljarða varnarmálastuðningur

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur samþykkt að Bandaríkin veiti Taívan stuðning til varnarmála sem nemur 567 milljónum dala. Það jafngildir um 77 milljörðum króna.

Þrátt fyrir að Bandaríkin viðurkenni ekki fullveldi Taívans þá er landið mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna og útvegar þeim mikið magn vopna. Eitthvað sem kínversk stjórnvöld eru uggandi yfir en þau hafa margsinnis hvatt bandarísk stjórnvöld til að hætta að útvega Taívan vopn, því Kínverjar halda því fram að Taívan heyri undir kínverskt yfirráðasvæði. 

Yfirvöld í Washington sendu frá sér stutta yfirlýsingu þar sem segir frá því að Biden hafi beðið utanríkisráðherra Bandaríkjanna um að sjá um að ganga formlega frá þessum stuðningi.

Hafa lofað Taívan milljörðum dala

Ekki er útlistað í smáatriðum í hvað fjármunirnir fara, en stuðningurinn er tæplega tvöfalt meiri en stuðningurinn sem bandarísk stjórnvöld veittu Taívan í júlí. Sú upphæð nam 345 milljónum dala.

Í apríl samþykktu bandarísk stjórnvöld að leggja Taívan til milljarða dala til varnarmála í skugga þess að stjórnvöld í Kína séu farin að færa sig meira upp á skaftið gagnvart eyjunni. 

Yfirvöld í Kína hafa reglulega brugðist reið við alþjóðlegum stuðningi við Taívan og hafa enn fremur sakað Bandaríkin um að skipta sér af innanríkismálum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert