Hisbollah viðbúin innrás Ísraelshers

Naim Qassem sendi frá sér ávarp í dag.
Naim Qassem sendi frá sér ávarp í dag. AFP

Naim Qassem, næstæðsti leiðtogi Hisbollah–samtakanna, segir samtökin viðbúin innrás Ísraela í Líbanon og tilbúin að verjast komi til átaka á landi. Hann varar jafnframt við að átökin gætu varað lengi. 

Hann sendi frá sér ávarp í sjónvarpi í dag þar sem einnig kom fram að samtökin myndu velja sér nýjan leiðtoga við fyrsta tækifæri. Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah var drepinn í árás Ísraelshers á höfuðstöðvar samtakanna í Beirút í Líbanon á föstudag. 

„Varnarsveitir okkar eru í viðbragðsstöðu“

Í ávarpinu sagði Qassem að Hisbollah–samtökin myndu halda áfram að mæta ísraelska óvininum til stuðnings Palestínu og til varnar líbönsku þjóðinni. Það yrði að bregðast við drápum á almennum borgurum.

„Við munum bregðast við þeirri atburðarás sem kemur upp og við erum tilbúin ef Ísraelsher ákveður að gera innrás á landi. Varnarsveitir okkar eru í viðbragðsstöðu.“

Ein þungvopnuðustu hryðjuverkasamtök í heimi

Heil­brigðisráðuneyti Líb­anon grein­di frá því um helgina að yfir 700 hefðu látið lífið í árás­um Ísra­els­hers í vik­unni sem leið. Þá gerði Ísraelsher fjölda árása á Líb­anon í gær, en árásirnar voru sagðar bein­ast að vopna­búr­um His­bollah. Hisbollah–samtökin gerðu einnig tvær árás­ir í norður­hluta Ísra­els í gær. 

His­bollah eru ein þung­vopnuðustu hryðju­verka­sam­tök í heimi, en klerkastjórnin í Íran hefur stutt þau bæði með fjármagni og vopnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka