Íranir ætla ekki að senda her til Líbanons

Íranskir hermenn á hersýningu fyrr í mánuðinum.
Íranskir hermenn á hersýningu fyrr í mánuðinum. AFP/Atta Kenare

Íranir ætla hvorki að senda herlið sitt til Líbanons né Gasasvæðisins til að berjast við Ísrael, að sögn utanríkisráðuneytis Írans.

„Það er engin þörf á að senda auka- eða sjálfboðaliðasveitir frá Íran,“ sagði Nasser Kanani, talsmaður utanríkisráðuneytisins. Hann bætti við að yfirvöld í Líbanon og palestínskar sveitir búi yfir nægum styrk og getu til að verjast gegn ágangi Ísraela.

Undanfarna daga hafa hersveitir Ísraela gert harðar loftárásir á skotmörk í Líbanon. Árásirnar hafa beinst gegn herskáum hópum sem eru með tengsl við stjórnvöld í Íran. Umræddir hópar eru einnig staðsettir í Sýrlandi, Jemen og í Írak.

Á föstudag féll Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah-samtakanna, í árás sem Ísraelar gerðu á Beirút, sem er höfuðborg Líbanons. Íranir hafa stutt samtökin fjárhagslega árum saman sem og að útvega þeim vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert