Ísraelskir sérsveitarmenn í Líbanon

Lík borið til grafar í borginni Sidon í Suður-Líbanon eftir …
Lík borið til grafar í borginni Sidon í Suður-Líbanon eftir loftárás Ísraela á Ain El Delb í gær. AFP/Mahmoud Zayyat

Ísraelskir sérsveitarmenn eru komnir inn í Suður-Líbanon þar sem þeir hafa, að sögn heimildarmanns breska blaðsins The Telegraph, gert atlögur að völdum skotmörkum á meðan liðsmenn Hisbollah-samtakanna eru taldir hafa takmarkaðan slagkraft eftir áföll síðustu vikna, fyrst fjarskiptatæki sem sprungu samtímis um alla Beirút og svo víg höfuðleiðtogans Hassans Nasrallah þar á borginni á föstudaginn.

Reiknað er með því að aðgerðir Ísraelshers í suðurhluta landsins verði hertar næstu daga og það staðfestir ísraelskur embættismaður sem segir Telegraph að sérsveitarmennirnir ráðist að innviðum Hisbollah-samtakanna, þar á meðal vopnabúrum, aðgerða- og stjórnstöðvum með það fyrir augum að hrekja vígamenn samtakanna fjær landamærunum við Norður-Ísrael.

Naim Qassem, starfandi leiðtogi Hisbollah-samtakanna eftir fall Nasrallah, sagði í morgun, eins og mbl.is greindi frá, að samtökin væru reiðubúin til átaka á jörðu niðri við Ísraelana.

Upplýsingar frá heimildarmanni innan ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad herma að Ísraelar hyggist nú engan tíma missa í kjölfar vígs leiðtogans á föstudaginn á meðan liðsmenn samtakanna eru enn að ná vopnum sínum eftir áfallið.

Þá gaf ísraelski varnarmálaráðherrann Yoav Gallant það sterklega til kynna að ísraelskir hermenn kæmu til með að láta til skarar skríða og ráðast inn í Líbanon. „Við munum beita öllum okkar möguleikum, þar á meðal ykkur,“ sagði ráðherrann þegar hann ávarpaði ísraelska hermenn við landamærin að Líbanon í dag.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert