Meira mannfall en nokkurn tíma áður

Átökin hafa stigmagnast síðustu vikur.
Átökin hafa stigmagnast síðustu vikur. AFP/Mahmoud Zayyat

Nýtt skeið er hafið í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs og líkur eru á að þau fari að magnast mun hraðar en við höfum séð síðasta árið. Mannfallið í Líbanon gæti orðið svipað og á Gasa og gera má ráð fyrir að milljónir til viðbótar leggi á flótta. 

Fall Hassan Nasrallah, leiðtoga Hisbollah-samtakanna, kemur eitt og sér ekki til með að hafa nein úrslitaáhrif, en nú er beðið átekta hvort Ísraelsher ráðist inn í Líbanon og hefji þar landhernað. Verði það raunin megi búast við jafn skelfilegum fréttum þaðan og frá Gasa síðasta árið. Þetta segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College í Massachussets.

„Þetta er nýr kafli, það er mikil óvissa, mikil spenna og fólk á flótta. Við munum sjá enn fleiri flóttamenn og enn meira mannfall. Þessar myndir frá Gasa sem við höfum séð síðasta ár, ég get ímyndað mér að við munum sjá álíka myndir og álíka fréttir frá Líbanon næstu vikurnar, allavega fram að forsetakosningum í Bandaríkjunum,“ segir Magnús í samtali við mbl.is. En Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta í byrjun nóvember.

Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum …
Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum Mið-Austurlanda. mbl.is/Hari

Fáum líklega svipaðar fréttir frá Líbanon

Magnús telur því allar líkur á að tugir þúsunda muni deyja og milljónir leggi á flótta, ef tekið er mið af því sem gerðist á árunum 1982 og 2006 þegar Ísrael réðst inn í Líbanon.

„Þá er það svo sannarlega þannig og eyðileggingin var algjör. Það var mikið um mannfall. Mannfallið er mun meira núna á styttri tíma en við höfum séð nokkurn tíma áður. Þetta er því á allt öðrum skala núna. Eins og staðan er þá bendir allt til þess að við munum sjá slíkar myndir frá Líbanon, því miður.“

Frá því að Hamas-samtökin gerðu árásir á Ísrael þann 7. október í fyrra og tóku gísla og Ísraelar hófu að svara fyrir sig með linnulausum árásum á Gasasvæðinu, hafa Hisbollah-samtökin og Ísraelsher nær daglega skipst á skotum við landamæri Líbanon og Ísrael, þó ríkin eigi ekki formlega í stríði. 

AFP/Rabih Daher

Kosningar í Bandaríkjunum hafa áhrif

Síðustu vikurnar hafa átökin hins vegar verið að magnast og í vikunni sem leið létust yfir 700 manns í loftárásum Ísraela á Líbanon. Á föstudag féll svo æðsti leiðtogi Hisbollah í árás Ísraelsmanna. 

Aðspurður hvers vegna við séum að sjá þessa stigmögnun núna segir Magnús í raun mega horfa til ýmissa þátta sem kunni að hafa áhrif á tímasetninguna.

„Upphaflegt markmið Ísraela með innrásinni á Gasa í október var að frelsa gíslana og binda endi á Hamas, en því markmiði hefur ekki verið náð. Þeir eru því kannski að huga að öðrum markmiðum, eins og að veikja Hamas-samtökin með því að ráðast á stuðningsmenn þeirra í Líbanon, það er að segja Hisbollah–samtökin. Ísraelsmenn líta ekki á þetta sem aðskilin átök, heldur tengd átök. Þetta er þá annað stigið og hluti af heildaráætlun og því talið nauðsynlegt að gera það núna,“ útskýrir Magnús.

Þá telur hann að staðan í bandarískum stjórnmálum hafi einnig áhrif, en þar sem Joe Biden hafi ekki gefið kost á sér aftur, ríki þar hálfgerð biðstaða. Ísraelsmenn líti svo á að Bandaríkjaforseti hafi ekki mikil pólitísk völd eins og er.

„Það eru fyrst og fremst þeir sem geta spilað stærra hlutverk í að binda endi á þessi átök. Það er kannski eitt af því sem þeir töldu mikilvægt, að hefja þetta stríð áður en kosningarnar eiga sér stað.“

AFP/Mahmoud Zayyat

Hisbollah bíða eftir landhernaði

Magnús segir ljóst að ákveðin kaflaskil séu að eiga sér stað. Það að búið sé að ráða leiðtoga Hisbollah-samtakanna af dögum skipti hins vegar ekki öllu máli, það muni ekki binda endi á neitt. Samtökin haldi áfram að vera til og það geri Líbanon líka. 

„Þetta er bara spurning um hvað gerist næst. Það virðist sem Ísrael ætli að hefja landhernað í Líbanon og það er kannski sú tegund bardaga sem Hisbollah–samtökin eru að bíða eftir. Þeir vita að þeir geta ekki ráðið við Ísrael með lofthernaði, en með landhernaði geta þeir hugsanlega valdið skaða á ísraelska hernum,“ segir Magnús, og heldur áfram:

„Það sem við höfum haft miklar áhyggjur af, frá því síðasta haust, er að átökin muni magnast. Fram að þessu hefur þetta ekki gerst eins hratt og búist var við, en núna er spurningin hvort það sé hafið nýtt skeið þar sem átökin magnast enn frekar. Við bíðum bara átekta hvað Íranir og Líbanar gera. Líbanar, sérstaklega, telja að þeir hafi allan rétt til þess að verja sig og það er spurning hvort þeir ætli að svara í sömu mynt. Hvort þeir hafi burði til þess. Og þá hvernig þeir ætli að verja sig.“

AFP

Hreyfingin enn til staðar

Staðan sé hins vegar mjög óljós. Þegar Ísraelsmenn réðust inn í Líbanon á árunum 1982 og 2006 hafi það verið gert í þeim tilgangi að ráða niðurlögum ákveðinna afla og koma ákveðnum einstaklingum frá völdum. Það hafi hins vegar sýnt sig að um tímabundinn sigur hafi verið að ræða. Átökin stigmagnist frekar með hverju skeiði.

„Þær árásir eða þau stríð áttu að binda endi á öll stríð eða átök, og áttu að vera grundvöllur að friði í Mið-Austurlöndum. Þó að það náist að drepa ákveðna forystumenn þá er hreyfingin og flokkurinn enn þá til staðar og alls konar aðilar sem munu taka við og aðlagast nýjum aðstæðum. Þetta stigmagnast bara við hvert einasta skeið,“ segir Magnús.

Nú sé Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, að fagna en of snemmt sé að segja til um langtímaáhrif átakanna.

„Það má kannski segja að Ísraelar líti svo á að 7. október hafi verið þeirra 11. september og að það sé mikil tilvistarkreppa hjá þeim. Þeir eru núna að berjast á átta ólíkum vígstöðvum og telja að það sé nauðsynlegt. Þetta er þeirra stríð gegn hryðjuverkum eins og Bandaríkjamenn háðu í upphafi 21. aldar, en Bandaríkjamönnum færðist of mikið í fang, fóru úr Afganistan í Írak. Það er spurning hvort Ísraelar séu að fara svipaða leið.“

AFP/Mahmoud Zayyat
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert