Sat saklaus á dauðadeild í 46 ár

Iwao Hakamada sést hér ásamt systur sinni ræða við fjölmiðla …
Iwao Hakamada sést hér ásamt systur sinni ræða við fjölmiðla og stuðningsfólk sitt í gær. AFP

Karlmaður sem hefur setið á dauðadeild í japönsku fangelsi áratugum saman fagnaði í dag „fullkomnum sigri“ eftir að dómstóll í Japan sneri við dómi þar sem hann hafði verið dæmdur fyrir morð.

Maðurinn, hinn 88 ára gamli Iwao Hakamada, þakkaði öllu stuðningsfólki sínu eftir að dómurinn var kveðinn upp á fimmtudag.

Hann hafði verið á dauðadeildinni í 46 ár, en hann hlaut dóm fyrir að myrða fyrrverandi yfirmann sinn, eiginkonu hans og tvö börn á unglingsaldri.

Beðið lengi eftir þessari stund

„Ég hef loksins unnið fullkominn sigur,“ sagði Hakamada við stuðningsfólk sitt í gær í Shizouka, sem er hérað sem er suðvestur af höfuðborginni Tókýó, en þar var dómurinn kveðinn upp.

Hakamada brosti þegar hann sagði frá því að hann hefði ekki getað beðið lengur eftir því að heyra að hann væri saklaus.

Systir hans, sem er 91 árs gömul, stóð við hlið bróður síns í gær en sýnt var frá fundinum í japönsku sjónvarpi í gær.

Hakamada, sem er 88 ára gamall, dvaldi á bak við …
Hakamada, sem er 88 ára gamall, dvaldi á bak við lás og slá í 46 ár. AFP

Fimmti fanginn á dauðadeild sem fær dómi snúið við

Hakamada, sem var hnefaleikakappi á sínum yngri árum, er fimmti fanginn á dauðadeild sem fær mál sitt endurupptekið eftir seinna stríð. Hin málin enduðu einnig með því að dómunum var snúið við.

Fangelsisvistin hefur tekið sinn toll á andlegri heilsu Hakamada, en hann var að mestu í einangrun þar sem ákvörðun um aftöku vofði yfir honum.

Lögmenn hans og stuðningsfólk segja að Hakamada búi í fantasíuheimi.

Honum var sleppt úr fangelsi árið 2014 á meðan beðið var eftir því að málið væri tekið aftur upp á nýjan leik. Hann hefur lítið tjáð sig opinberlega um málið.

AFP

Játning fengin fram með pyntingum

Í umfjöllun AFP kemur fram að ákæruvaldið hafi frest til 10. október til að ákveða hvort áfrýja eigi niðurstöðunni. Það verður þó að teljast ólíklegt þar sem dómstóllinn fór hörðum orðum um málflutning ákæruvaldsins í málinu. Dómarinn sagði að rannsóknarlögreglumenn hefðu að auki falsað mikilvæg sönnunargögn í málinu.

Dómstóllinn segir enn fremur, að játning Hakamada á sínum tíma hafi verið fengin fram með harðræði við yfirheyrslur þar sem hann var pyntaður andlega. Dómstóllinn segir að játningin hafi af þeim sökum verið ógild.

Þá segir dómstóllinn að blóðug föt, sem voru notuð til að sakfella Hakamada, hafi verið partur af leikriti. Rannsóknarlögreglumenn eru sagðir hafa sett blóð á fötin og komið þeim fyrir í tanki þar sem fötin „fundust“ við rannsókn málsins.

Þegar málið verður formlega til lykta leitt þá getur Hakamada farið fram á miskabætur, eða sem nemur 200 milljónum jena, sem samsvarar um 190 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert