Glappaskots Írans verði hefnt

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur til með að funda á morgun …
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur til með að funda á morgun til að ræða stöðu mála í átökunum og hvernig forðast beri stigmögnun. AFP/Spencer Platt

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels hefur heitið hefndum eftir loftárás Írans fyrr í kvöld. Hann segir að hefnt verði fyrir drambsamt glappaskot Írans.

„Við munum framfylgja þeirri reglu sem við höfum einsett okkur: Við munum ráðast á hvern þann sem ræðst á okkur,“ sagði Netanjahú.

Skutu 200 eldflaugum

Íran skaut um 200 eldflaugum í átt að Ísrael en í fyrstu var talið að þær hefðu verið nær 180.

Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta sagði árásina máttvana og að atlögu Írans hefði verið hrundið.

Patrick Ryder, undirhershöfðingi bandaríska hersins og talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Pentagon, sagði umfang árásarinnar tvöfalt á við fyrri árás Írans í apríl.

Greina á um meint skotmörk

Að sögn talsmanns Ísraelshers, sem fréttastofa AFP ræddi við, var ætlunarverk árásarinnar að hæfa borgaraleg skotmörk og drepa þúsundir borgara.

Íranski byltingarvörðurinn sagði aftur á móti að skotmörk árásarinnar hefðu verið þrjár herstöðvar nærri borginni Tel Avív.

Bæði Joe Biden Bandaríkjaforseti og Kamala Harris, varaforseti og frambjóðandi demókrata til forseta, hafa heitið Ísrael staðföstum stuðningi í kjölfar árásarinnar.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar á morgun til að ræða stöðu mála í átökunum og hvernig forðast beri stigmögnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert