Palestínumaður lést í árásinni

Íranir söfnuðust saman á Palestínu-torgi í höfuðborg Írans og fögnuðu …
Íranir söfnuðust saman á Palestínu-torgi í höfuðborg Írans og fögnuðu loftárásinni. AFP/Atta Kenare

Íran skaut um 180 eldflaugum í átt að Ísrael í kvöld. Ísraelski herinn segir í tilkynningu að afleiðingar árásarinnar eigi eftir að koma betur í ljós, en að minnsta kosti einn lést í árásinni.

Hinn látni var palestínskur verkamaður í borginni Jeríkó í Palestínu. Hann varð fyrir sprengjubroti að sögn Hussein Hamayel, ríkisstjóra í Jeríkó. 

Vitað er að einhverjar flaugar hæfðu skotmörk innan Ísraels en ekki er meira vitað að svo stöddu. 

Ísraelsher hefur heitið hefndum í kjölfar árásarinnar og telja álitsgjafar erlendra fjölmiðla að hefnd Ísraels verði heiftarlegri en eftir síðustu loftárás Írans á Ísrael fyrr á árinu.

Hamas hrósar hetjulegri árás

Hamas-hryðjuverkasamtökin hrósuðu Íran fyrir árásina og lögðu blessun sína á „hetjulegar“ eldflaugasendingar íranska byltingarvarðarins. 

Byltingarvörðurinn sagði árásina hefndaraðgerð fyrir dráp tveggja leiðtoga, Ismail Haniyeh leiðtoga Hamas og Hassan Nasrallah leiðtoga Hisbollah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert