Mark Rutte, nýr framkvæmdastjóri NATO, segist ekki hafa áhyggjur af áhrifum mögulegs sigurs Donalds Trumps í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum á bandalagið. Hann heitir því jafnframt að halda áfram stuðningi NATO við Úkraínu.
Rutte, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Hollands, tók í morgun við embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins af Norðmanninum Jens Stoltenberg.
Búist er við því að fyrsta stóra prófraun Rutte í embætti verði samskipti við næsta forseta Bandaríkjanna en kosningarnar þar fara fram 5. nóvember.
Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, hefur á kosningafundum heitið því að vernda ekki aðildarríki NATO sem eyða ekki nægum fjármunum í varnarmál. Einnig hefur hann lofað því að ná skjótum samningi við Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að binda enda á stríðið í Úkraínu.
„Ég hef engar áhyggjur. Ég þekki báða frambjóðendurna mjög vel. Ég starfaði í fjögur ár með Donald Trump. Hann vildi að við eyddum meiri peningum og honum varð að ósk sinni,“ sagði Rutte áður en hann tók formlega við embættinu.
„Ég mun geta starfað með þeim báðum sama hver útkoman verður í kosningunum,“ bætti hann við, en Kamala Harris býður sig fram til forseta fyrir hönd Demókrataflokksins.
Stoltenberg hafði þetta að segja um eftirmann sinn: „NATO verður í öruggum höndum með þig við stjórnvölinn.“