Stál í stál: Varaforsetaefnin mætast í kvöld

Sérfræðingar telja kappræður varaforsetaefnanna vera sögulega mikilvægar.
Sérfræðingar telja kappræður varaforsetaefnanna vera sögulega mikilvægar. AFP

J. D. Vance, varaforsetaefni Donalds Trumps, og Tim Walz, varaforsetaefni Kamölu Harris, munu mætast í kappræðum í kvöld sem taldar eru vera þær mikilvægustu á meðal varaforsetaefna í sögunni.

Munu kappræðurnar hefjast í New York-borg klukkan 21.00 að staðartíma.

Segir breska ríkisútvarpið að á meðan yfirleitt sé lítið í húfi er varaforsetaefni Bandaríkjanna mætast í kappræðum gæti staðan nú verið önnur.

Gífurlega lítill munur er nú á fylgi forsetaframbjóðendanna Donalds Trumps og Kamölu Harris og er hvert tækifæri til að kalla fram jákvæða athygli og fá pólitískan skriðþunga talið vera gífurlega dýrmætt. 

Að sögn breska ríkisútvarpsins er talið að svo gæti farið að aðeins nokkur þúsund tugir atkvæða muni skilja forsetaframbjóðendurna að í nokkrum ríkjum er kemur að kosningum.

Þá hefur einnig verið bent á að kappræður mannanna muni að minnsta kosti vera heillandi atburður til að fylgjast með, enda um tvo menn að ræða sem hafa mjög frábrugðna stíla og hugmyndir.

Klón af Trump

Vance var formlega útnefndur varaforsetaefni Trumps í júlí.

Var hann kjörinn í öldungadeild Bandaríkjaþings árið 2022 og hefur á undanförnum árum talað á svipaðan hátt og Donald Trump um ýmis málefni. Hann vill stöðva flæði ólöglegra innflytjenda yfir landamærin við Mexíkó, hækka og fjölga verndartollum og minnka íhlutun Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.

„Hann er klón af Trump, ég sé engan mun á þeim,“ sagði Biden við blaðamenn spurður um álit sitt á Vance þegar hann var útnefndur.

Frjálslyndi ríkisstjórinn

Vegferð Tim Walz í átt að hreppa útnefningu demókrata er örlítið öðruvísi enda stóð til að Kamala Harris myndi enn þá gegna því embætti og Joe Biden, núverandi Bandaríkjaforseti, myndi sækjast eftir endurkjöri.

Eftir að Biden dró framboð sitt til baka gaf Harris kost á sér sem frambjóðandi demókrata til forseta Bandaríkjanna og hófst þá leit að varaforsetaefni hennar.

Segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins að Walz, sem gegndi embætti ríkisstjóra Minnesota-ríkis, hafi ekki verið efstur á lista í þeirri leit en hann hafi þó á endanum heillað Harris eftir að sjónvarpsviðtöl við hann fóru að vekja athygli.

Gerði hann m.a. grín að repúblikum og kallaði þá skrítna en einnig þótti hann þeim hæfileika gæddur að geta varið frjálslynda stefnu demókrata með hóflegum og vináttulegum hætti.

Þá hefur hann þótt nokkuð frjálslyndur í stjórnartíð sinni í Minnesota. Hefur hann undirritað lög er varða afglæpavæðingu kannabiss, rétt til þungunarrofs, rétt til fæðingarorlofs og strangari skotvopnalöggjöf.

Margt gæti verið tekið fyrir

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins er talið líklegt að kappræður kvöldsins verði líflegar. Þykir líklegt að Vance muni hamra á demókrata varðandi efnahags-, innflytjendamál og glæpi sem eru flokkar sem kannanir sýna að repúblikanar virðast vera að hafa betur í.

Þá gæti hann einnig sakað Walz um að hafa brugðist of seint við ofbeldisfullum mótmælum sem urðu í Minnesota-ríki eftir dauða Georges Floyds sem lést af höndum lögreglumanns í Minneapolis-borg sem er í ríkinu.

Einnig gæti hann tekið fyrir nokkrar af umdeildari frjálslyndum stefnum sem Walz setti sem ríkisstjóri, þar á meðal um réttindi trans fólks.

Þá þykir líklegt að Walz muni taka fyrir yfirlýsingar Walz eins og að innflytjendur í Ohio séu að stela gæludýrum og borða þau eða taka fyrir ummæli hans um að barnslausar konur í Demókrataflokknum séu barnslausar kattakonur.

Þá er einnig talið líklegt að Walz beini umræðu sinni að málaflokkum þar sem demókratar mælast sterkari á borð við umhverfismál, heilbrigðiskerfi og þungunarrof. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert