J.D. Vance, varaforsetaefni Donalds Trumps, og Tim Walz, varaforsetaefni Kamölu Harris, tókust á í kappræðum í nótt sem þóttu jákvæðar. Kannanir benda til þess að báðir hafi þeir sloppið vel en að Vance hafi staðið sig betur.
Fyrir kappræðurnar voru meiri væntingar til Walz því hann hefur mun meiri reynslu af kappræðum heldur en Vance, sem er nýr í stjórnmálum. En það tók Walz smá tíma að koma sér af stað, hann virtist taugaóstyrkur í byrjun og gaf oft á tíðum löng svör þar sem styttri svör hefðu kannski þjónað honum betur.
Það má þó segja að hann hafi bætt sig þegar leið á kappræðurnar og olli hann framboði Harris líklega litlu sem engu tjóni.
Vance hefur sætt gagnrýni fyrir ýmis ummæli sem hann hefur látið falla í gegnum tíðina og hefur átt erfitt uppdráttar frá því að hann var útnefndur varaforsetaefni Trumps.
Honum virtist þó líða vel á stóra sviðinu, var greinilega búinn að undirbúa sig vel og sérfræðingar vestanhafs telja hann hafa sýnt einstaklega góða frammistöðu.
CBS lét framkvæma fyrir sig könnun meðal líklegra kjósenda sem horfðu á kappræðurnar. Í úrtakinu voru töluvert fleiri demókratar heldur en repúblikanar, en 39% af úrtakinu voru demókratar á sama tíma og 33% voru repúblikanar. 28% skilgreindu sig sem óflokksbundna.
42% svarenda sögðu Vance hafa unnið kappræðurnar á sama tíma og 41% sögðu Walz hafa unnið. Bendir það til þess að Vance hafi unnið á sitt band fleiri óflokksbundna kjósendur.
Þá var spurt hvort að kappræðurnar hefðu verið almennt á jákvæðum nótum eða neikvæðum nótum og 88% sögðu kappræðurnar hafa verið á jákvæðu nótunum.
Fólkið í úrtakinu var spurt fyrir kappræður og eftir kappræður hvaða viðhorf það hafði til frambjóðendanna.
Fyrir kappræður sögðu 52% svarenda að þeir hefðu jákvætt viðhorf til Walz og eftir kappræður sögðu 60% svarenda að þeir hefðu jákvætt viðhorf til Walz.
Fyrir kappræður sögðu 40% svarenda að þeir hefðu jákvætt viðhorf í garð Vance en eftir kappræður sögðu 49% að þeir hefðu jákvætt viðhorf í garð hans.
CNN lét einnig framkvæma fyrir sig könnun og þar voru áhorfendur með skiptar skoðanir á því hver vann kappræðurnar.
Í úrtakinu hjá CNN voru einnig fleiri demókratar en repúblikanar en þrátt fyrir það sögðu 51% svarenda að Vance hefði unnið kappræðurnar á meðan 49% sögðu Walz hafa unnið þær.
Fyrir kappræður töldu 54% svarenda úr sama úrtaki að Walz myndi standa sig betur og því má segja að hann hafi ekki staðið undir væntingum, að minnsta kosti í könnun CNN.
Aftur á móti sögðu 48% í sömu könnun að Walz væri meira í tengingu við hinn venjulega Bandaríkjamann á sama tíma og 35% sögðu það um Vance.
Aðeins 1% svarenda sagði að kappræðurnar hefðu einhver áhrif á afstöðu þeirra.