Reglur Votta Jehóva um barnaníð til rannsóknar

„Salur ríkisins“ í Silkeborg í Danmörku. Danska kirkjumálaráðuneytið hefur hafið …
„Salur ríkisins“ í Silkeborg í Danmörku. Danska kirkjumálaráðuneytið hefur hafið rannsókn á ákvæðum handbókar öldungaráðs Votta Jehóva um barnaníð. Í Noregi var trúfélagið svipt ríkisstyrk í kjölfar umfjöllunar Brennpunkt-þáttar NRK árið 2020 og uppfyllir ekki lengur skilyrði norskra laga til að vera skráð trúfélag þar í landi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Robert de Jong

Danski kirkjumálaráðherrann Morten Dahlin hefur fyrirskipað rannsókn á trúfélaginu Vottum Jehóva í kjölfar greinaflokks dagblaðsins Ekstra Bladet sem aðrir danskir fjölmiðlar hafa fjallað um síðustu daga. Þetta staðfestir ráðuneytið við Kristeligt Dagblad.

Hefur talsmönnum Votta Jehóva verið gert að svara fyrir reglur eða leiðbeiningar sem settar eru fram í því sem á dönsku kallast „Ældstehåndbog“ og er kennd við öldungaráðið svokallaða sem ræður lögum og lofum innan trúfélagsins og hefur meðal annars það hlutverk að yfirheyra unglinga í söfnuðinum um kynhegðun þeirra eins og fram kom í Brennpunkt-þáttaröð norska ríkisútvarpsins NRK, Guðs útvöldu, eða Guds utvalde, árið 2020.

Afhjúpuðu rannsóknarblaðamenn Brennpunkt þar útskúfun og útilokun trúfélagsins gagnvart þeim er yfirgáfu söfnuðinn, jafnvel börnum, sem varð til þess að norsk stjórnvöld sviptu Votta Jehóva ríkisstyrkjum sínum. Krafði trúfélagið norska ríkið um styrkina fyrir dómi en tapaði því máli.

Var norskum lögum um trúfélög í kjölfarið breytt og teljast Vottar Jehóva nú ekki uppfylla skilyrði þeirra til að fá skráningu sem trúfélag í landinu.

Danska málið er þannig vaxið að Ekstra Bladet komst yfir handbók öldungaráðsins sem reglulega er lekið á netið og hefur mbl.is fengið sent rafrænt eintak af handbókinni sem er 290 blaðsíður og skiptist í 30 kafla.

Danski kirkjumálaráðherrann Morten Dahlin hefur fyrirskipað rannsókn í kjölfar greinaflokks …
Danski kirkjumálaráðherrann Morten Dahlin hefur fyrirskipað rannsókn í kjölfar greinaflokks Ekstra Bladet um handbók öldungaráðsins sem flestir stærri fjölmiðlar Danmerkur hafa fjallað um síðustu daga. Ljósmynd/Venstre

Hafi samband við lögfræðideildina

Það sem vakið hefur mikinn úlfaþyt í Danmörku eru leiðbeiningar í 14. kafla handbókarinnar um hvernig trúfélagið telji rétt að bregðast við kynferðislegri misnotkun. Í enskri útgáfu handbókarinnar ber 14. kaflinn einfaldlega yfirskriftina „Child Abuse“.

Komi til slíkra tilfella er ekki kveðið á um að endilega skuli vísa málinu til réttra löggæsluyfirvalda viðkomandi ríkis. Hins vegar er öldungaráðinu uppálagt að hafa samband við lögfræðideild trúfélagsins, „den interne juridiske afdeling“ á dönsku.

Er þó eftirfarandi tekið fram í þeim hluta kaflans þar sem sérstaklega er fjallað um kynferðislega misnotkun barna og hvernig trúfélagið skuli bregðst við slíkum málum. Hér er þýtt úr ensku útgáfu handbókarinnar, sem mbl.is hefur undir höndum, og tilvísunum í ritninguna í svigum sleppt:

Meðhöndlun safnaðarins á áburði um kynferðislega misnotkun barns er ekki ætlað að leysa af hólmi málsmeðferð veraldlegra yfirvalda. Þar með skal gera fórnarlambinu, foreldrum hennar eða hverjum þeim öðrum sem tilkynnir öldungaráðinu um slíkar ásakanir skýra grein fyrir því að þau hafa rétt á að tilkynna veraldlegum yfirvöldum um málið.

Öldungarnir munu ekki hafa uppi neina gagnrýni í garð nokkurs sem kýs að leggja fram slíka tilkynningu.

Ritningin leggur þá skyldu á herðar foreldrum að kenna börnum sínum og vernda þau. Sem andlegir hirðar geta öldungarnir verið foreldrum innan handar við að axla ábyrgð sína gagnvart Ritningunni.

Sums staðar gæti verið skylt að tilkynna

Í undirkaflanum Lagaleg álitaefni (e. Legal considerations) er eftirfarandi tekið fram:

Barnaníð er glæpur. Í sumum lögsagnarumdæmum gæti þeim, sem fengið hafa veður af hugsanlegu barnaníði, verið skylt að lögum að tilkynna veraldlegum yfirvöldum um grunsemdirnar. (Upprunalegur texti svo ekkert fari milli mála: Child abuse is a crime. In some jurisdictions, individuals who learn of an allegation of child abuse may be obligated by law to report the allegation to the secular authorities).

Í 18. tölulið 14. kaflans er kveðið á um að öldungaráðið skipi tveggja manna rannsóknarnefnd í kjölfar ásakana um barnaníð. Undir lok töluliðarins er svo mælt fyrir um hvað rannsóknarnefndin skuli taka til bragðs komi til þess undantekningartilfellis að nauðsynlegt reynist að ræða við barnið sem fyrir níðinu varð. Er þar bent á þjónustudeildina. Textinn á ensku:

In the exceptional event that the two elders believe it is necessary to speak with a minor who is a victim of child sexual abuse, the elders should first contact the Service Department.

Dahlin kirkjumálaráðherra segir í skriflegu svari til Ritzau-fréttastofunnar að trúfélagið hafi verið „beðið um að halda sig við áreiðanlegar upplýsingar [d. konkrete oplysninger] ásamt því að ráðuneytið hafi óskað eftir að fá umrædda öldungabók afhenta“.

Í samtali við danska ríkisútvarpið DR segir ráðherra að danska dómskerfið „nái að sjálfsögðu yfir skráð trúfélög“ og enn fremur segir ráðherra: „Ég vænti þess því algjörlega að vilji trúfélag halda skráningu sinni hér í Danmörku og þar með njóta þeirra kosta sem þeim forréttindum fylgja, fylgi það einnig lögum og reglum þeim sem gilda í Danmörku.“

Kveðst Dahlin enn fremur vænta þess til hins ýtrasta að við lögbrot sé samband haft við réttmæt yfirvöld.

„Verði ráðuneytið þess áskynja...“

Samkvæmt dönskum lögum um trúfélög er skráðu trúfélagi ekki heimilt að „hvetja til eða aðhafast nokkuð það sem gengur í berhögg við dönsk lög“. Verði á þessu misbrestur er ráðuneytinu heimilt að svipta trúfélag skráningunni.

Húsnæði Votta Jehóva í Silkeborg séð utan frá. Jørgen Pedersen, …
Húsnæði Votta Jehóva í Silkeborg séð utan frá. Jørgen Pedersen, talsmaður upplýsingadeildar Votta Jehóva í Skandinavíu, segir við Kristeligt Dagblad að „jafnvel þótt öldungaráðinu beri ekki lagaleg skylda til að tilkynna ásakanir til yfirvalda mun svæðisskrifstofa Votta Jehóva tilkynna öldungaráðinu að það skuli tilkynna [yfirvöldum] um málið, ef barn á enn þá á hættu að verða misnotað eða önnur gild ástæða er fyrir hendi“. Ljósmynd/Wikipedia.org/Robert de Jong

Í skriflegu svari ráðuneytisins til DR segir eftirfarandi: „Verði ráðuneytið þess áskynja, að trúfélag uppfylli ekki lengur skilyrðin til skráningar mun ráðuneytið hefja rannsókn með það fyrir augum að meta hvort trúfélag geti áfram talist skráð trúfélag.“

Jørgen Pedersen, talsmaður upplýsingadeildar Votta Jehóva í Skandinavíu, segir í skriflegu svari til Kristeligt Dagblad að öldungaráð trúfélagsins hafi ekki umboð til að framfylgja landslögum. Segir svo í svari Pedersens:

„Trúfélagið mun ekki með nokkru móti hindra að áburður um barnamisnotkun verði kærður til yfirvalda. Og jafnvel þótt öldungaráðinu beri ekki lagaleg skylda til að tilkynna ásakanir til yfirvalda mun svæðisskrifstofa Votta Jehóva tilkynna öldungaráðinu að það skuli tilkynna [yfirvöldum] um málið, ef barn á enn þá á hættu að verða misnotað eða önnur gild ástæða er fyrir hendi.“

Greinir hann að lokum frá því að hlutverk öldungaráðsins sé aðeins að úrskurða um hvort sakborningur í refsimáli geti tilheyrt Vottum Jehóva áfram.

Vottar Jehóva hafa verið skráð trúfélag í Danmörku síðan 1970.

DR

Jyllands-Posten

Ekstra Bladet

Kristeligt Dagblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert