British Airways og Ryanair hafa aflýst flugferðum til Ísrael sökum óstöðugleika fyrir botni Miðjarðarhafs.
British Airways tilkynnti í dag að félagið hygðist aflýsa öllum flugferðum frá London til ísraelsku borgarinnar Tel Aviv til og með 26. október en flugfélagið hefur til þessa flogið daglega til borgarinnar frá Heathrow-flugvelli.
Segja talsmenn flugfélagsins ákvörðunina hafa verið tekna í kjölfar óstöðugleika á svæðinu.
Átök þar hafa færst talsvert í aukana að undanförnu en auk stórfelldra hernaðaraðgerða á Gasasvæðinu undanfarið ár hafa Ísraelsmenn nú einnig hafið árásir á nágrannalandið Líbanon.
Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur einnig tilkynnt að öllum flugferðum til Ísrael verði aflýst að minnsta kosti fram í lok janúar en líklegast lok mars.
Mun flugfélagið einnig láta af fjórum áætlunarferðum frá Spáni og Belgíu til Amman, höfuðborgar Jórdaníu, út október.
„Við biðjumst velvirðingar en... við getum ekki tekið áhættuna sem felst í því að fljúga áhöfn okkar og farþegum til þessa svæðis,“ sagði forstjóri Ryanair, Michael O'Leary.
„Ef vopnahléi verður komið á munum við fljótt hefja áætlunarflug til Tel-Aviv á ný og til Amman.“