Bretar og ESB vilja styrkja samstarfið

Keir Starmer forsætisráðherra fer yfir málin á blaðamannafundi í húsnæði …
Keir Starmer forsætisráðherra fer yfir málin á blaðamannafundi í húsnæði framkvæmdastjórnar ESB í Brussel í gær. AFP/Benjamin Cremel

Forsvarsmenn Breta og Evrópusambandsins hafa undirritað yfirlýsingu þar sem þeir heita því að styrkja samband sitt að nýju eftir Brexit-samkomulagið frá því Bretar yfirgáfu sambandið.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands og Urslulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er greint frá því að verið sé að meta á hvaða sviðum hægt verði að styrkja samstarf.

Sérstaklega er tilgreint að stefnt sé að frekara samstarfi í öryggis-, orku- og efnhagsmálum.

Hagsmunir í öndvegi 

Þrátt fyrir þýðu í samskiptum hafnaði Starmer því að um kúvendingu væri að ræða í afstöðu Breta til Evrópusambandsins. Hann sagði hins vegar að um væri að ræða praktíska nálgun á samskiptin þar sem siðsemi og hagsmunir væru í öndvegi.

Þá sagði Starmer einnig að tími væri til kominn að horfa til framtíðar án þess að atburðarásin sem leiddi til Brexit yrði í brennidepli.

Fundur von Leyden og Starmer fór fram í gær og var hann sá fyrsti sem forsætisráðherrann hefur haldið með forsvarsmönnum sambandsins síðan hann tók við embætti í júlí.

Bresk fyrirtæki tekið skell 

Starmer hefur þegar haft á orði að hann vilji beita sér gegn viðskiptahindrunum gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu en eins og fram hefur komið urðu mörg bresk fyrirtæki fyrir skakkaföllum þegar þau misstu aðgang að EES-svæðinu. 

Starmer hefur þó talað með skýrum hætti um það að hann vilji ekki taka aftur upp fyrirkomulag frjáls flæðis verkafólks á milli landa og opin landamæri.

Á móti hefur Evrópusambandið lýst því yfir að ekki verði í boði að handvelja kosti sambandsins. 

Ekkert samkomulag um unga fólkið

Ljóst er að frekara samstarf gæti reynst einhverjum vandkvæðum háð. Evrópusambandið lagði fram tillögu í apríl um að ungu fólki reyndist auðveldara að ferðast til og frá landa sambandsins og Bretlands. Tillagan mætti mikilli andúð meðal þeirra sem harðastir eru í Brexit-afstöðu sinni. 

Starmer hefur sjálfur sagt að ekkert verði af slíku samstarfi að svo stöddu vegna andstöðunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert