Segir Trump ekki eiga að njóta friðhelgi

Jack Smith, sérstakur saksóknari.
Jack Smith, sérstakur saksóknari. AFP/Alex Wong

Jack Smith, sérstakur saksóknari, segir í dómsskjölum að Donald Trump hafi framið glæpi til þess að hnekkja niðurstöðum forsetakosninganna 2020. Glæpirnir hafi ekki tengst forsetaembættinu og því ætti hann ekki að njóta friðhelgi forsetaembættisins í málinu.

Þetta kemur fram 165 blaðsíðna dómsskjali sem Smith lagði fram til þess að sannfæra dómstóla um að taka upp ákæru dómsmálaráðuneytisins gegn Trump.

Málið varðar meðal annars áhlaupið á þinghúsið 6. janúar 2021.

Málið sett á ís

Trump átti að fara fyrir dómstóla í mars fyrir að hafa reynt að snúa við niðurstöðu forsetakosninganna.

Málið var sett á ís um stundarsakir þar sem lögfræðiteymi Trumps sagði að hann nyti friðhelgi þar sem hann hefði verið forseti þegar þessir meintu glæpir áttu að hafa verið framdir.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að sækja fyrrverandi forseta til saka fyrir opinber embættisverk, en þó megi sækja þá til saka ef meintir glæpir tengist ekki embættinu.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana. AFP/Chandan Khanna

„Samsærið í grunninn einkamál“

Smith segir í dómsskjölunum að meintir glæpir Trumps hafi hins vegar ekki tengst embættinu.

„Þó að sakborningur hafi verið sitjandi forseti á meðan ákærða samsærið var framið var samsærið í grunninn einkamál,“ sagði Smith.

Hann sagði að meint ólöglegt athæfi Trumps hefði verið framið af Trump sem frambjóðanda, ekki sem forseta.

Trump kveðst saklaus

Trump hefur lýst sig saklausan og sakað Smith um að hundsa æðsta dómstólinn. Talsmaður Trump-kosningateymisins, Steven Cheung, sagði vísa ætti málinu frá.

Enn fremur sagði hann ákæruna fara gegn stjórnarskránni og vera hlaðna lygum og hlutdræga.

Ákæra í mál­inu var gef­in út 1. ág­úst en málið í Washington D.C. hverf­ist fyrst og fremst í kring­um árás­ina á þing­húsið í höfuðborg­inni 6. janú­ar árið 2021, nokkr­um vik­um áður en Trump lét af embætti for­seta.

6. janúar réðist fjöldi stuðningsmanna Trump inn í þinghúsið í …
6. janúar réðist fjöldi stuðningsmanna Trump inn í þinghúsið í Washington. AFP/Saul Loeb

Samsæri um svik við Bandaríkin

Trump er ekki ákærður fyr­ir ákveðin um­mæli í tengsl­um við árás­ina á þing­húsið, held­ur er ákær­an byggð á opn­ari túlk­un, meðal ann­ars um sam­særi um svik við Banda­rík­in og sam­særi gegn rétt­ind­um banda­rískra borg­ara.

Í dómsskjölunum er sagt að Trump og aðstoðar­menn hans hafi dreift röng­um upp­lýs­ing­um um meint kosn­inga­svik, hvatt emb­ætt­is­menn re­públi­kana í ríkj­un­um sem Biden vann til að grafa und­an úr­slit­un­um, búið til falska kjörmenn og þrýst á Mike Pence vara­for­seta að staðfesta ekki atkvæði kjörmanna.

„Verðum að leggja allt í sölurnar“

Smith segir í skjalinu að það séu nægar sannanir fyrir því að Trump hafi vitað að fullyrðingar hans um kosningasvik væru rangar vegna þess að nánir ráðgjafar hans hefðu sagt honum það.

Meðal annars segir Smith að fyrrverandi starfsmaður í Hvíta húsinu sé tilbúinn að bera vitni um samtal sem hann varð vitni að á milli Trumps og fjölskyldu hans.

„Það skiptir ekki máli hvort þú vannst eða tapaðir kosningunum. Við verðum að leggja allt í sölurnar,“ á vitnið að hafa heyrt Trump segja við fjölskyldu sína degi eftir kosningarnar.

Engin réttarhöld fyrir kosningar

Tanya Chutkan, dómarinn í málinu, hefur ekki gefið út dagsetningu fyrir það hvenær réttarhöld hefjast. Það verður þó ekki fyrir kosningarnar 5. nóvember.

Í sumar var trúnaðarskjalamáli Trumps í Flórída vísað frá, en það tengist ekki þessu máli beint þó að Jack Smith hafi einnig leitt það mál gegn Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert