Sænsku unglingarnir sem voru handteknir í Kaupmannahöfn í gær fyrir að varpa handsprengjum nálægt ísraelska sendiráðinu eru góðkunningjar sænsku lögreglunnar í tengslum við smáglæpi.
Þetta kemur fram í dómsskjölum sem Danska ríkisútvarpið hefur undir höndum.
Annar þeirra er 19 ára og hinn 16 ára og eru þeir báðir í haldi lögreglu. Sá eldri átti að mæta fyrir dómstóla í Svíþjóð í dag í tengslum við minna fíkniefnamál en mætti ekki í ljósi þess að hann er í haldi í Danmörku.
Sá yngri hefur sömuleiðis áður komið við sögu lögreglu vegna smáþjófnaðar í sænsku versluninni Kicks, sem selur snyrti- og hreinlætisvörur. Var þýfið að andvirði 295 sænskra króna eða tæpar 4.000 íslenskar krónur.
Er því fátt sem tengir drengina við skipulagða glæpastarfsemi í Svíþjóð fram til þessa en hvort það eigi við í tilfelli árásarinnar á sendiráðið liggur ekki fyrir að svo stöddu.
Þeir neita báðir sök í málinu sem átti sér stað við sendiráðið í úthverfinu Hellerup á Kaupmannahafnarsvæðinu.
Sprengingarnar áttu sér stað aðfaranótt miðvikudags og voru þrír sænskir ríkisborgarar handteknir í kjölfarið í stórfelldum lögregluaðgerðum, en einn þeirra var handtekinn í lestarvagni fyrir framan fjölda vitna.
Þriðja manninum hefur verið sleppt úr haldi en hann var handtekinn skömmu eftir að sprengingarnar áttu sér stað.