Æðstiklerkur: „Palestínumenn höfðu rétt fyrir sér“

Æðstiklerkur ávarpaði bænastund.
Æðstiklerkur ávarpaði bænastund. AFP/Khamenei.ir

Ayatollah Ali Khamenei æðstiklerk­ur Írans segir að hryðjuverk Hamas-samtakanna í Ísrael fyrir tæplega ári hafi verið „rökrétt og lögmæt“ aðgerð og að Palestínumenn hafi haft „rétt fyrir sér“. Segir hann að íslamskar vígasveitir í Mið-Austurlöndum muni sigra.

Þetta kom fram er hann ávarpaði þúsundir Írana í Teheran höfuðborg Írans en hann hefur ekki tjáð sig opinberlega í kjölfar þess að Íran réðst á Ísrael á þriðjudag.

„Al-Aqsa-árásirnar [nafnið á hryðjuverkaaðgerðinni] sem áttu sér stað um þetta leyti í fyrra voru rökrétt og lögmæt alþjóðleg aðgerð og Palestínumenn höfðu rétt fyrir sér,“ sagði Khamenei í fágætri bænaræðu í Teheran.

Hamas-samtökin frömdu stórfellda hryðjuverkaárás á Ísra­el 7. októ­ber 2023 þar sem hátt í 1.200 voru myrt­ir og á þriðja hundrað gísl­ar tekn­ir. Vegna árásarinnar hófst stríð á milli Ísraels og Hamas.

„Andspyrnan“ muni ekki láta undan

Und­ir­sát­ar Írans í Mið-Aust­ur­lönd­un­um eru meðal ann­ars Hamas í Palestínu, Hisbollah-hryðjuverkasamtökin í Líb­anon, upp­reisn­ar­hóp­ur Húta í Jemen ásamt nokkr­um hryðju­verka­hóp­um í Írak sem eru hluti af banda­lagi sem geng­ur und­ir nafn­inu „Íslömsk and­spyrna“.

Hófu þessir hópar að fyrra bragði árásir á Ísrael eftir að þjóðin varð fyrir árás Hamas.

„Andspyrnan á svæðinu mun ekki láta undan þrátt fyrir þessa píslarvættisdauða, heldur sigra,“ sagði Khamenei og vísaði til þess að háttsettir menn í Hisbollah og Hamas hafa verið felldir að undanförnu. 

Hrósaði Hisbollah

Ísrael er nú komið í landhernað í Líbanon. Markmið aðgerðarinnar er að sögn hersins að tryggja öryggi Ísraelsmanna í norðurhluta Ísraels, en um 60 þúsund Ísraelsmenn hafa þurft að flýja heimili sín vegna eldflaugaárása Hisbollah sem hafa staðið yfir frá 8. október á síðasta ári.

Khamenei hrósaði Hisbollah í ávarpi sínu og sagði samtökin vera að vinna „nauðsynlega vinnu fyrir allt svæðið og allan íslamska heiminn“.

Fyrir viku síðan felldi Ísrael leiðtoga Hisbollah, Hassan Nasrallah, og fjöldann allan af háttsettum mönnum í samtökunum.

Um 1.000 hafa verið drepnir í árásum Ísraels á skotmörk Hisbollah í Líbanon frá 23. september en ekki liggur fyrir hversu margir eru óbreyttir borgarar eða hluti af Hisbollah.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert