ESB hækkar tolla á kínverska rafbíla

Tólf ríki sátu hjá atkvæðagreiðslunni, þar á meðal Svíþjóð og …
Tólf ríki sátu hjá atkvæðagreiðslunni, þar á meðal Svíþjóð og Spánn. mbl.is/Árni Sæberg

Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu fyrr í dag að hækka tolla á innflutta rafbíla frá Kína til sambandsins.

Þrátt fyrir andstöðu Þýskalands og ótta um viðskiptastríð við Kína getur sambandið nú hækkað tolla á innflutta kínverska rafbíla úr 10% í allt að 35,3%.

Kína hefur andmælt hækkuninni og lýsir henni sem verndartollastefnu.

Fimm greiddu atkvæði á móti

Evrópuráðið komst að þeirri niðurstöðu í júní á þessu ári að með aðstoð frá kínverska ríkinu gætu kínverskir rafbílaframleiðendur sótt fram á evrópskan markað með því að undirbjóða samkeppnisaðila.

Tíu aðildarríki, þar á meðal Frakkland, Ítalía og Pólland, samþykktu hækkunina og fimm andmæltu henni, þar á meðal Þýskaland og Ungverjaland.

Tólf ríki sátu hjá atkvæðagreiðslunni, þar á meðal Svíþjóð og Spánn.

Hækkunin fékk þannig ekki stuðning meirihluta aðildarríkja sambandsins en fimmtán ríki hefðu þurft að greiða atkvæði gegn henni til þess að koma í veg fyrir hana.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneyti Kína er ESB hvatt til þess að hverfa frá áformum um hækkun tolla og að leysa viðskiptadeilumál með samræðu á milli þjóða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert