Sameinuðu arabísku furstadæmin segja að vopnaðar fylkingar trúarhópa í Mið-Austurlöndum hafi reynst Arabaheiminum dýrkeyptar. Þau vona jafnframt að Arabar móti framtíð svæðisins sameiginlega með því m.a. að „sættast um nærumhverfi sitt“.
Þetta segir Anwar Gargash, sem er náinn ráðgjafi forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
„Í ljósi stríðsátaka og neyðarástands sem ógnar bæði öryggi Araba og svæðisins, þá stendur okkur ekkert annað til boða en að endurvekja þá hugmynd um þjóðríkið og virða sjálfstæði þess og fullveldi,“ skrifaði Gargash í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum X.
„Tími vopnaðra hópa með sína trúarlegu og svæðisbundnu sýn hefur verið Arabaheiminum dýrkeyptur og svæðinu íþyngjandi,“ bætti hann við. Ljóst þykir að Gargash sé þarna að vísa til vopnaðra sveita sjíamúslíma í Mið-Austurlöndum sem njóta stuðnings Írana, að því er segir í umfjöllun CNN.
„Framtíðin að öryggi, friði og velmegun er sjálfstætt arabískt verkefni sem sættist við nærumhverfi sitt,“ sagði Gargash.
Þá segir hann að tveggja ríkja lausn sé sá hornsteinn sem byggja verði á til að binda enda á átökin á milli Ísraels og Palestínu.