Tveggja ára barn og þrír fullorðnir létu lífið

Eftirlitsmenn reyna að koma í veg fyrir að innflytjendur leggi …
Eftirlitsmenn reyna að koma í veg fyrir að innflytjendur leggi í svaðilför yfir Ermasundið. AFP/Sameer al-Doumy

Tveggja ára drengur og þrír fullorðnir létu lífið eftir að tveir bátar, yfirfullir af fólki, lentu í vandræðum á leiðinni yfir Ermarsundið frá Frakklandi til Englands, að sögn franskra embættismanna.

Í öðru tilfellinu fannst tveggja ára barn meðvitundarlaust í yfirfullum báti í morgun.

Hafði báturinn orðið vélarvana og höfðu skipverjar óskað eftir aðstoð, en 90 manns voru um borð.

Guirec Le Bras, saksóknari í Boulogne-sur-Mer í Frakklandi, sagði að barnið, sem fæddist í Þýskalandi en átti sómalska móður, hefði kramist til dauða.

Lík þriggja í kringum þrítugt

Í hinu atvikinu varð annar bátur vélarvana og var hann einnig yfirfullur af fólki, undan strönd Calais.

Í ringulreiðinni sem fylgdi féllu nokkrir um borð og þurftu björgunaraðilar að bjarga þeim.

Fundust þá lík tveggja karlmanna og konu, öll í kringum þrítugt, á botni bátsins, að sögn Jacques Billant, ríkisstjóra í Pas-de-Calais.

Þremenningarnir höfðu „líklega kramist, kafnað og drukknað“ í sjó í botni bátsins, að sögn Billant.

Einn þeirra var frá Víetnam, en hin tvö af afrískum uppruna, að sögn saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert