55 ára karlmaður lést eftir að skógarbjörn réðst á hann í skógarsvæði í norðurhluta Slóvakíu í nótt.
Frá þessu greindi talsmaður lögreglunnar í samtali við slóvakíska fjölmiðilinn SME í gær.
Maðurinn hafði ásamt öðrum farið út í skógarsvæði nálægt þorpinu Hybe til að tína sveppi þegar skógarbjörninn réðst á manninn. Hann hlaut lífshættulega áverka en björgunarþyrla með sjúkraflutningamenn innanborðs var kölluð til.
Maðurinn lést á vettvangi af völdum hjartastopps en slagæð í neðri hluta líkama mannsins fór í sundur eftir árás bjarnarins.
Talið er að 1.300 skógarbirnir séu í Slóvakíu og í gögnum frá slóvakíska umhverfisráðuneytinu var tilkynnt um 20 árásir skógarbjarna á menn á síðasta ári.