„Bankinn er ekki pabbi minn“

Heidi Kaltvedt brást ókvæða við þegar banki hennar bannaði henni …
Heidi Kaltvedt brást ókvæða við þegar banki hennar bannaði henni að taka meiri peninga út úr hraðbanka og hefur mbl.is spurnir af viðskiptavini Nordea-bankans sem var hreinlega hótað að hann yrði rekinn úr viðskiptum gæti hann ekki sýnt fram á kvittanir fyrir öllu sem keypt var fyrir reiðufé. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Hér er skugga grunsemda varpað á mig [...] þeir biðja um kvittanir fyrir tíðatöppum og kartöflum,“ segir hin norska Heidi Kaltvedt í samtali við TV2 þar í landi en henni brá illilega í brún þegar hún fékk SMS-skeyti frá viðskiptabanka sínum, Skagerrak Sparebank, í síðustu viku þar sem hún var vinsamlegast beðin um að láta af þeirri háttsemi að taka peninga út úr hraðbönkum af reikningi sínum í bankanum.

Svo hljóðaði skeytið:

Kæri viðskiptavinur. Fyrir ekki alls löngu sendum við þér skilaboð þar sem við báðum þig um að nota minna reiðufé. Við getum ekki séð að þú hafir tekið þetta til greina. Þess vegna biðjum við þig að hætta hér með að taka út reiðufé. Þú átt að nota greiðslukort þegar þú verslar. Þurfirðu að senda fé á annan hátt [er hér átt við millifærslusmáforrit á borð við Vipps í Noregi] mundu þá að skrifa í fylgitexta fyrir hvað greiðslan var. Með bestu kveðju, Skagerrak Sparebank (Þessum skilaboðum er ekki hægt að svara).

Heidi Kaltvedt kveðst í viðtalinu við TV2 ætla að binda endi á viðskipti sín við bankann sem hún hefur skipt við alla ævi. „Þetta var dropinn sem fyllti mælinn,“ segir Kaltvedt við fjölmiðilinn norska og dregur ekki fjöður yfir reiði sína.

Lögum nýlega breytt

Kaltvedt kýs að nota reiðufé í daglegum viðskiptum sinnum, svo sem við matvörukaup, eins og raunar fjöldi fólks í Noregi kýs. Um það fjölluðu norskir fjölmiðlar og mbl.is 1. október þegar sú breyting á lögum um fjármunasamninga tók gildi að allir seljendur vöru og þjónustu í Noregi væru frá þeim degi skyldugir til að taka við reiðufé sem greiðslu.

„Ég tók út stærri upphæð í sumar þegar ég fékk orlofsféð mitt,“ segir Kaltvedt, en í Noregi greiðist orlofsfé út sem ein upphæð í júní, tólf prósent af heildarlaunum almanaksársins á undan. Þetta er júníútborgunin en launagreiðandi greiðir ekki venjuleg laun fyrir þann mánuð óháð því hvenær fólk tekur sitt sumarfrí. Orlofslaunin, eða feriepenger, eru hins vegar mánaðarlaun og vel ríflega það miðað við reikniregluna.

Engin svimandi upphæð

Kaltvedt hugðist þá gera tilraun á sjálfri sér og kanna hvort hún fengi með hærri upphæð í einu – og þá til innkaupa í lengri tíma – enn gleggri yfirsýn og betri stjórn á fjárhag sínum. Þá tók bankinn að hafa samband við hana. Fyrsta SMS-viðvörunin barst.

„Mér finnst það mjög sérstakt að grunsemdum um svartamarkaðsbrask sé varpað á mann hvert skipti sem maður tekur út reiðufé. „Bankinn er ekki pabbi minn og þetta eru peningar sem ég hef þegar greitt skatta af,“ segir Kaltvedt sem reiknast til að hún hafi tekið út um það bil 100.000 norskar krónur, jafnvirði 1,3 milljónar íslenskra króna, síðasta árið.

„Þetta er engin svimandi upphæð. Ég myndi ætla að stærri fiskar væru á sundi en ég sem kýs að nota reiðufé daglega. Þeir [Skagerrak Sparebank] spyrja mig um hvað ég noti peningana mína í og biðja mig að senda kvittanir fyrir tíðatöppum og kartöflum,“ segir Kaltvedt sem sendi skjámynd af SMS-skeyti bankans út á samfélagsmiðilinn X og spurði hvort norskir bankar hefðu virkilega rétt til að fara fram á það sem Skagerrak Sparebank gerði.

Spöruðu hneykslaðir Norðmenn þar ekki athugasemdirnar en 194.000 manns hafa séð boðskap Kaltvedt og tæplega 200 áframsent hann.

„Við leggjumst flöt hérna“

Síðdegis á fimmtudaginn hafði TV2 samband við Skagerrak Sparebank og gerði stjórnendum bankans grein fyrir málinu og stóð ekki á viðbrögðum.

„Við staðfestum að starfsmaður hér sendi skilaboð til viðskiptavinar sem aldrei hefði átt að senda á því formi sem þau voru send. Hér voru mistök gerð af okkar hálfu,“ segir markaðs- og samskiptastjóri bankans, Jan Erling Kvisvik, við TV2 og er spurður hvað það var í skilaboðunum sem aldrei hefði átt að senda.

Jan Erling Kvisvik, markaðs- og samskiptastjóri Skagerrak Sparebank, kveður mistök …
Jan Erling Kvisvik, markaðs- og samskiptastjóri Skagerrak Sparebank, kveður mistök hafa átt sér stað með hranalegum SMS-skilaboðum sem send voru Heidi Kaltvedt. Ljósmynd/Skagerrak Sparebank

„Þetta SMS-skeyti hefði aldrei átt að senda, það voru mistökin. Við leggjumst flöt hérna. Starfsmaðurinn sem sendi skilaboðin mun að sjálfsögðu sjálfur fá skýr skilaboð,“ segir Kvisvik og bætir því við að málið sé nú til meðferðar í andpeningaþvottardeild bankans.

Þegar TV2 ræddi við hann hafði bankinn ekki enn haft samband við Kaltvedt en að sögn samskiptastjórans stóð til að gera það.

TV2

Nettavisen

Tønsbergs Blad (læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert