Gat ekki haldið aftur af tárunum

Ísraelsmenn eru enn slegnir ári eftir fordæmalausa árás hryðjuverkasamtakanna Hamas sem var framin 7. október 2023.

„Ég finn fyrir mikilli sorg, þetta er mjög sorglegt. Hvert sem maður lítur er maður minntur á það. Í sjónvarpinu, í símanum og fólk grætur út á götu. Andrúmsloftið er mjög þungt,“ segir Sarah Horowitz, íbúi í Tel Avív, í samtali við AFP.

Fyrir ári síðan drápu sex þúsund víga­menn nær 1.200 manns, marg­falt fleiri voru særðir, hundruðum var nauðgað og 250 tekn­ir í gísl­ingu.

Jafn þungt yfir henni í dag og fyrir ári síðan

Tess Culbertson, íbúi í Tel Avív, sagði að það sé jafn þungt yfir henni í dag og fyrir ári síðan þegar hryðjuverkin voru framin. Eins og sjá má í viðtali hér að ofan þá átti hún erfitt með að halda aftur af tárunum.

„Mig langar ekki að vera ein heima eða vera ein í dag yfir höfuð,“ segir hún við AFP-fréttaveituna og útskýrir að vinnustaðurinn hennar yrði með minningarathöfn í dag.

„En mér finnst samt eins og við séum að komast yfir þetta. Þetta hvílir á mér og okkur öllum á hverjum einasta degi,“ sagði Culbertson.

Eins og martröð

Ariel Tamir, íbúi í Tel Avív, segir við AFP að þetta sé eins og martröð sem þau eigi eftir að vakna upp úr.

„En gíslarnir eru ekki komnir heim, sem gerir þetta raunverulegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert