Óvenjulegur fellibylur vex hratt: „Sporin hræða“

Innrauð gervihnattamynd bandarísku veðurstofunnar NOAA.
Innrauð gervihnattamynd bandarísku veðurstofunnar NOAA. Kort/NOAA

Óvenjulegur fellibylur í miklum vexti stefnir nú óðum að Flórída úr vestri og kemur til með að ógna þéttbýlum svæðum í ríkinu.

Veðurfræðingur segir sporin hræða.

Milton varð rétt í þessu að fimmta stigs fellibyl en hann er talinn munu ná landi í Flórída á miðvikudag eða fimmtudag.

Íbúar í Flórída búa sig undir fellibyl. Fána Bandaríkjanna er …
Íbúar í Flórída búa sig undir fellibyl. Fána Bandaríkjanna er stundum snúið á hvolf til að tákna neyðarástand. AFP/Bryan R. SMITH

Myndaðist í Mexíkóflóa

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í samtali við mbl.is að yfirleitt myndist fellibyljirnir á Atlantshafi eða í nálægð við Karíbahaf. Þessi hafi aftur á móti orðið til í Mexíkóflóa.

Síðastliðinn sólarhring hefur hann eflst til muna.

„Hann er að myndast á óvenjulegum stað. Hann er að myndast yfir Yucatan-skaga og hann er að myndast yfir sjó sem er 30 gráður,“ segir Einar og bætir við að sjórinn sé hlýrri en venjulega vegna hitabylgju yfir sjónum í sumar.

„Hann er að koma eiginlega öfugt að Flórída. Stundum koma þeir beint af hafi og inn við Flórídaskaga eða inn á Mexíkóflóa og taka þar sveig í áttina að og upp með Flórídaströndum. En núna kemur hann bara beint úr vestri og straujar skagann úr „öfugri átt“.“

Spá um þróun fellibylsins næstu daga.
Spá um þróun fellibylsins næstu daga. Kort/NOAA

Gengur að landi hjá Tampa 

Gert er ráð fyrir því að fellibylurinn gangi að landi við Tampa-flóa og fari yfir þéttbýl svæði í ríkinu eins og Orlando-borg.

Bandaríkjamenn eru enn að jafna sig eftir að fellibylurinn Helena gekk yfir Flórída og fimm önnur ríki með til­heyr­andi usla fyrir rúmri viku. 

Yfir 200 manns eru látnir eftir þann fellibyl og hafa slíkar tölur ekki sést í Bandaríkjunum síðan að fellibylurinn Katrína reið yfir landið árið 2005.

Katrína óx hratt áður en hún gekk á land

Einar Sveinbjörnsson.
Einar Sveinbjörnsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Milton var fyrr í dag þriggja stigs fellibylur en eins og fyrr segir þá er hann nú orðinn fimmta stigs fellibylur.

Einar telur ekki margt benda til þess að það muni fjara úr Milton þar sem hann er yfir heitum sjó. Það sem þurfi til að draga úr krafti fellibylja sé kaldur sjór og land.

Nefnir hann sem dæmi að fellibylurinn Katrína hafi einnig byrjað sem lítill fellibylur en hafi vaxið hratt rétt áður en hann fór á land.

Þessi hraði vöxtur vekur ugg hjá þeim sem til þekkja.

„Eins og dæmin hafa sannað undanfarin ár. Katrína 2005 var fyrsta og frægasta dæmið, þar sem var tiltölulega lítill fellibylur sem óx alveg svakalega hratt rétt áður en hann gekk á land yfir mjög hlýjum sjó þarna inni á Mexíkóflóa,“ segir hann.

„Þannig að ég er ekkert hissa á því að menn séu mjög hræddir. Af því að sporin hræða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert